Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 19. ágúst 2020 01:10
Elvar Geir Magnússon
KR-ingar í algjörri óvissu - Fengu bréf um að þeir væru komnir í sóttkví
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, og Jónas Kristinsson framkvæmdastjóri.
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, og Jónas Kristinsson framkvæmdastjóri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net náði tali af Jónasi Kristinssyni, framkvæmdastjóra KR, þegar hann var nýkominn til landsins. KR-ingar voru þá búnir að fara í gegnum skimun og búast þeir við niðurstöðu á miðvikudag.

Jónas segir að KR-ingar séu í algjörri óvissu um hvað tekur svo við en liðið var að koma úr Evrópuverkefni og lenti á Íslandi eftir miðnætti, þá tóku í gildi á landinu nýjar reglur um alla komufarþega á Íslandi.

Þegar KR-ingar voru búnir í skimun fengu þeir bréf um að þeir væru komnir í sóttkví.

Reglurnar segja til um 5-6 daga sóttkví meðan beðið er eftir leyfi til að fara í seinni skimun í því tvöfalda skimunarkerfi sem allir komufarþegar til Íslands lenda í.

Ekki er enn vitað hvort fótboltalið muni fá undanþágu frá þessum reglum þegar farið er í Evrópuverkefni. KR-ingar fóru einnig í skimun um síðustu helgi, áður en þeir héldu til Skotlands.

Í Evrópuleikjum er ítrustu varúðar gætt, leikmenn þurfa að fara eftir ströngum reglum og fylgst er vel með heilsufari þeirra. Til dæmis er skylda að ferðast í útileiki með leiguflugi en ekki almenningsflugi.

Jónas segist vonast eftir því að yfirvöld vinni vel í þessum málum en fyrirhugaðir eru fleiri Evrópuleikir íslenskra félagsliða ásamt landsleikjum og ljóst að ef undanþága verður ekki veitt muni það setja þessa leiki alla í hættu. Þá er hætta á enn frekari frestun á Íslandsmótinu hér á landi.

Almannavarnir hafa ráðið Gunnar Gylfason til að aðstoða varðandi keppnisferðir íslenskra liða erlendis í forkeppnum í Meistara- og Evrópudeildinni en ekki náðist í hann við vinnslu þessarar fréttar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner