Joshua Zirkzee, VIctor Osimhen, Riccardo Calafiori, Conor Gallagher, Florian Wirtz og fleiri koma við sögu
banner
   mán 21. febrúar 2022 17:54
Fótbolti.net
Stórfurðuleg upplifun af þjálfaranámskeiði - „Hugsaði hvort þau sæu mig eða hinar stelpurnar í salnum"
Katrín Ómarsdóttir
Katrín Ómarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Túfa var eini fyrirlesarinn sem notaði rétt persónufornöfn
Túfa var eini fyrirlesarinn sem notaði rétt persónufornöfn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þær Katrín Ómarsdóttir og Ingunn Haraldsdóttir voru gestir í nýjasta þættinum af Heimavellinum. Þær Hulda Mýrdal og Mist Rúnarsdóttir sjá um þáttinn og ræddu við KR-ingana tvo.

Katrín Ómarsdóttir, sem nú er aðstoðarþjálfari Hauka, sagði frá sinni upplifun á þjálfaranámskeiði hjá KSÍ á sínum tíma.

Rætt var um að hagsmunasamtök knattspyrnukvenna hefðu verið endurvakin.

„Það er svo margt í menningunni okkar sem við erum orðin samdauna við. Ég var á þjálfaranámskeiði hjá KSÍ og þar sitjum við þrjár konur í salnum. Flestir fyrirlesararnir voru karlkyns, flestir af þeim og meira að segja konurnar líka - við erum nefnilega svo blind á þetta, sögðu „þið strákarnir" þegar talað var til hópsins. Ég hugsaði með mér hvort þau sæu mig eða hinar stelpurnar í salnum. Það kippti sér engin upp við þetta."

„Þetta var stórfurðulegt en svo kemur Tufa (Srdjan Tufegdzic), sem kemur til Íslands og lærir íslensku. Hann var eini fyrirlesarinn sem notaði rétt persónufornöfn þegar hann var að tala, bæði í verklegu æfingunum og þegar hann var að tala við mig og okkur. Flestir aðrir töluðu bara í karlkyni. Það er risastór skekkja sem ég fattaði þegar ég byrjaði að vinna í Hjallastefnunni þar sem við pössum okkur á orðræðu og að tala í réttu kyni. Tungumálið í fótbolta er karllægt og það er eitthvað sem við viljum skoða og laga af því við erum konur og viljum að talað sé við okkur í kvenkyni."

„Það er sagt að konur séu líka menn en eru menn konur? Við verðum menn þegar menn verða konur. Punktur,"
sagði Katrín.

Hún sagði í þættinum að hún hefði láti KSÍ vita af þessu. Að lokum sagði hún frá því þegar fyrirlesari kom á námskeiðið til að fjalla um jafnrétti.

„Mér finnst þetta stórmerkilegt... í stað þess að það kæmi fyrirlesari til að fjalla um ójafnfrétti í garð kvenna í íþróttinni þá kom fyrirlesari til að tala um jafnrétti innan íþróttarinnar. Núna er samkynhneigð mjög viðurkennd í kvenkynsfótbolta og ég veit ekki um neina fordóma þar. Ég hef hins vegar heyrt af því að karlamegin."

„Þarna varstu komin með fyrirlesara sem var að fjalla um hómófóbíu karlamegin en ekki ójafnrétti í garð kvenna sem er miklu stærra. Ég hugsaði bara hvað væri í gangi, þetta væri ekkert fyrir konur þetta námskeið heldur bara fyrir karla. Ég er viss um að fólk vill gera vel en þetta eru skekkjur sem fólk er orðið blint fyrir,"
sagði Katrín.

Umræðuna má nálgast í spilaranum hér að neðan eftir um 71 mínútu af þættinum.
Heimavöllurinn: Kemur alltaf einhver kona til að hleypa vindlareyknum út
Athugasemdir
banner
banner