mið 21.apr 2021 12:31 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
„Voru fyrst til að segja að ég væri feitur og fyrst til að segja að ég væri tilbúinn"
Pape Mamadou Faye er lentur aftur á Íslandi eftir að hafa dvalið í Senegal í meira en ár.
Hann er mættur aftur í kuldann og vonast til þess að fá tækifæri til að spila með félagi hér á landi í sumar.
Pape hefur gengið í gegnum erfiða tíma undanfarin ár vegna meiðsla en gafst ekki upp. Hann ræddi við Fótbolta.net um tímann í Senegal og síðustu ár.
'Þú hugsar um að gefast upp, það eru spurningar sem koma upp í hausinn á manni. Á sama tíma er fótbolti það sem maður elskar; þetta er leikurinn sem maður elskar'
'Sandurinn er ein af ástæðunum fyrir því að ég er orðinn góður af meiðslunum. Að venjast því að spila í sandinum var það erfiðasta sem ég gerði. Þetta er rosalegt en styrkir þig gríðarlega.'
'Ég tilkynnti Ejub (Purisevic) og Ólafsvík að ég fékk samning frá Færeyjum sem ég var ekki viss um að ég ætlaði mér að neita. Ég vildi hlusta á hvað þeir myndu segja og hvort þeir myndu toppa tilboðið. Það var aldrei boðið neitt. Á endanum sagðist ég þurfa að gera það sem væri best fyrir mig. Í júlí ætlaði ég til Færeyja.'
'Ég hugsaði: 'Hefði ég ekki átt að vera aðeins þolinmóðari?' Strákarnir hjá Ólafsvík eru alltaf að segja það sama: 'Pape, hefðir þú ekki farið þá hefðum við farið upp í Pepsi Max-deildina.' Það var alveg rétt.'
'Þú verður þakklátur í gegnum meiðslin, þakklátur fyrir tækifærin og að fá að taka þátt. Það er ástríðan sem hvatti mig áfram. Ég get ekki ímyndað mér að hætta í fótbolta, ekki strax. Þetta er það eina sem maður þekkir'
'Ég skil vel að fólk efist, en ég get ekkert gert í því. Það eina sem ég get sagt er að ég lagði mig fram og ég lagði mikla vinnu á mig á meðan ég var úti'
„Það er Covid í Senegal en ekkert jafn mikið stress og er í Evrópu og annars staðar. Það var aldrei neitt 'lockdown' eða þannig."
Komst ekki í aðgerð strax
Pape spilaði síðast fótbolta hér á landi sumarið 2019 með Þrótti Vogum. Hann ætlaði sér aldrei að spila fótbolta það sumar þar sem hann vra ekki heill heilsu. Hann átti að fara í aðgerð en sú aðgerð frestaðist út af tryggingamálum.
„Ég fór í aðgerð rétt áður en ég fór út til Senegal. Það voru gömul meiðsli sem voru búin að vera angra mig í tvö, þrjú ár. Þau komu alltaf í veg fyrir að ég væri 100 prósent. Ég ætlaði í þessa aðgerð eftir að ég kom heim frá Færeyjum 2018. Ég var kominn með dagsetningu en daginn sem ég átti að fara í aðgerðina fékk ég símtal að ég væri ekki tryggður lengur, að ég væri kominn út úr kerfinu. Það var ekki hægt að framkvæma aðgerðina. Ég hringdi í sjúkratryggingar og mér var sagt að ég þyrfti svona hálft ár til að komast aftur inn í kerfið. Þetta var af því ég flutti til Færeyja, það fokkaði öllu upp. Ég vissi ekki að þetta yrði svona mikið mál, ef ég hefði vitað þá hefði aldrei farið til Færeyja," segir Pape.
„Ég gat ekki farið í aðgerðina og ég bjóst ekki við að ég myndi spila 2019. Svo hringdi gamli þjálfarinn minn, Úlfur Blandon, í mig og bað mig um að mæta á æfingu hjá Þrótti Vogum. Ég gat æft og gert eitthvað en ég var aldrei að fara að vera 100 prósent. Ég lét hann vita af meiðslunum og að ég væri á leið í aðgerð. Hann sagði 'ekkert mál' og vildi fá mig til að hjálpa þeim. Ég sagði við hann 'þetta er í ykkar höndum'. Hann vildi taka slaginn. Ég byrjaði með þeim og var allt í lagi en svo gat ég ekki meira. Ég gat ekki haldið áfram. Ég spilaði fyrstu fimm leikina en svo kom ég bara inn á í 5-10 mínútur leikina eftir það."
„Svo fór ég í aðgerðina haustið 2019, mig minnir að það hafi verið í lok september eða byrjun október. Þetta var hællinn á mér. Ég veit ekki hvað meiðslin heita. Ég fór í þessa aðgerð og var rúmliggjandi í fjórar vikur. Svo var ég á hækjum í fjórar vikur í viðbót, þetta voru átta vikur þar sem ég gat ekki gengið almennilega."
Fitnaði mikið - Ættingjarnir hreinskilnir
Alvarleg meiðsli taka mikið á, bæði líkamlega og andlega. Pape ákvað að fara í endurhæfingu í sólinni í Senegal.
„Málið er það að eftir þetta allt saman, þá fitnaði ég rosalega. Þetta er svona þegar þú ferð í aðgerð og ert rúmliggjandi. Ég fitnaði helling og var orðinn 113 kíló. Ég var ólíkur sjálfum mér. Ég hef áður farið í aðgerð og farið svo í sólina til Senegal að jafna mig. Það er auðveldara."
„Ég bóka mér ferð til Senegal. Fyrst var planið að vera í fjóra mánuði, vera í endurhæfingu þar. Ég réð einkaþjálfara sem hjálpaði mér að komast aftur af stað. Fyrsta mánuðinn gat ég ekkert gert, mér var enn illt í fætinum. Svo byrjaði ég með einkaþjálfaranum; var í ræktinni og út á fótboltavelli. Þetta gekk mjög hægt, ég gat hlaupið en var aldrei tilbúinn í bolta. Það tók mig þrjá mánuði í Senegal þangað til ég byrjaði að snerta bolta."
„Það sem ég elska við fólkið þarna - ættingja og gömlu vinina - er að þau eru ekkert að fela hlutina. Þau sjá alltaf mun á manni. Það er ekkert 'þú lítur vel út' - þau koma skýrt fram. Fyrsta daginn sem ég mætti þarna sögðu ættingjarnir allir það sama: 'djöfull ertu feitur'. Þau eru ekki að segja það til að brjóta þig niður, þau eru bara hreinskilin. Ég lít á þetta sem pepp, ég vil frekar að fólk segi þetta við mig. Ég sagði bara við þau að ég hefði verið rúmliggjandi í tvo mánuði og það væri kalt á Íslandi. Ég horfði á þetta sem hvatningu," segir Pape.
Ákvað að vera lengur í Senegal
Þessi öflugi sóknarmaður ætlaði sér bara að stoppa í fjóra mánuði í Senegal, koma sér aftur í gang og fara aftur til Íslands að spila fótbolta. Það gekk ekki alveg eftir.
„Planið var alltaf að vera í fjóra mánuði. Ég var nokkuð viss um að ég gæti verið góður sumarið 2020 en ég þurfti meiri tíma en ég hélt fyrst. Maður var líka hræddur um að ferðast eins og allir aðrir vegna Covid. Ég ákvað að vera lengur og vinna í mínum málum. Þetta er ákvörðun sem ég sé ekki eftir."
„Ég hélt áfram að vinna í mínum málum. Einkaþjálfarinn minn er styrktarþjálfari hjá atvinnumannaliði þarna og hann kom mér inn í hópinn. Ég byrjaði smátt og smátt að sparka í bolta, hægt og rólega. Ég hélt því áfram í marga mánuði. Svo í júlí í fyrra, þá hélt ég að ég gæti komið inn í seinni hlutann á Íslandsmótinu. Sannleikurinn er sá að ég var aldrei tilbúinn í það. Ég var aldrei tilbúinn, það var mikil áhætta. Maður verður stundum að hlusta á sjálfan sig. Ég hlustaði bara á hjartað. Ég tók þetta tímabil úr hausnum á mér og vann frekar í fætinum."
Hvernig meiðsli eru þetta?
Pape segir að það hafi verið hællinn sem hafi verið til vandræða. Hann nefnir að þetta séu svipuð meiðsli og Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals, var í vandræðum með fyrir fjórum árum síðan sirka. Sigurður Egill var með aukin beinvöxt í hæl og þurfti að fara í aðgerð vegna þess.
„Þetta er hællinn. Þetta er eitthvað sem byrjaði að trufla mig þegar ég var í Víking Ólafsvík. Þetta er skrítið, það gerðist ekkert. Þetta kom upp allt í einu," segir Pape sem lék með Víkingi Ólafsvík frá 2016 til 2018.
„Það þurfti að skera aftan í hælnum, skafa og eitthvað. Ég man ekki nafnið á þessum meiðslum. Sigurður Egill Lárusson fór í svipaða aðgerð held ég. Læknirinn sem gerði þetta nefndi nokkra leikmenn sem fóru í þessa aðgerð. Málið með mig er að ég hélt áfram að spila með þessu og þess vegna tók það mig svona langan tíma að jafna mig. Þetta var slæmt og það sást inn á vellinum."
„Það tók mig tíma að koma mér aftur í gang. Ég er loksins búinn að losa mig við þetta og líður helvíti vel í fætinum. Ég er búinn að vinna mikið í mínum málum. Það fyrsta var að losna við þessi kíló og það er ekkert grín. Ég var lengi að finna hreyfingarnar aftur á vellinum því ég var svo þungur. Ég er 95 kíló núna og vöðvamikill. Mér líður vel í líkamanum."
Tók mikið á andlega
„Það komu tímar þar sem ég gafst næstum því upp," segir Pape en það er gríðarlega erfitt andlega að ganga í gegnum svona meiðsli. Erfið meiðsli sem virðast aldrei ætla að kveðja líkamann.
„Þú leggur svo mikið á þig og á einhverjum tímapunkti hugsarðu hvort þetta sé þess virði. Ég fann verki sem fóru aldrei."
Pape gefist hins vegar ekki upp, hann hélt alltaf áfram. Ástríðan fyrir fótbolta var það sem skipti mestu máli.
„Það komu tímar þar sem maður er neikvæður en sem betur fer hélt ég áfram að vinna í þessu. Þetta fór smátt og smátt. Ég hélt áfram að spila og var ekkert hræddur lengur. Ég er búinn að spila fullt af leikjum þarna, æfingaleiki. Ég hélt áfram að vinna í mínum málum, er orðinn góður í fætinum og missti 18 kíló. Ég var 113 kíló og er núna 95."
„Þetta reynir á andlega, sérstaklega þegar þú ert rúmliggjandi og getur ekki gert mikið. Fyrstu fjórar vikurnar eftir aðgerðina voru eins og helvíti, ég gat ekki hreyft mig. Ég var rúmliggjandi og gat ekkert gert. Það er erfitt að vera jákvæður, það reynir mikið á hausinn. Þú hugsar að þú verðir tilbúinn eftir fimm mánuði en svo eru verkir eftir það. Þú hugsar um að gefast upp, það eru spurningar sem koma upp í hausinn á manni. Á sama tíma er fótbolti það sem maður elskar; þetta er leikurinn sem maður elskar."
„Maður er líka þakklátur, þetta kennir manni mikið og maður þroskast að sjálfsögðu. Hugarfarið er allt annað í dag en fyrir fimm árum. Manni fannst eins og allt væri auðvelt. Þegar maður lendir í svona erfiðum meiðslum þá verður maður þakklátur. Ég er þakklátur að hafa fengið að spila með liðum á Íslandi, ég hef eignast fullt af vinum og fótboltinn er það sem gleður mann. Ég er þakklátur fyrir að hafa verið partur af liði, ég er þakklátur fyrir að hafa fengið þessi tækifæri. Þetta eru hlutir sem þú lærir í gegnum þessu erfiðu meiðsli," segir Pape.
Fékk gælunafnið 'Lukaku' í Senegal
Það er mikill fótboltaáhugi í Senegal að sögn Pape og fólk fylgist vel með gangi mála. „Ég fékk gælunafnið 'Lukaku' í Senegal. Ég er ekki að grínast. Strax eftir tvo leiki var fólk byrjað að kalla mig 'Lukaku'. Fólkið kallar mig ekki Pape þarna lengur," segir Pape en Romelu Lukaku, sóknarmaður Inter, er með þeim betri í heimi.
„Það elska allir fótbolta þarna. Fólk vill meina að við séum með svipaðan stíl, sterkir framherjar. Við erum ekki með neitt hár og með mikið skegg."
Pape flutti til Íslands frá Senegal þegar hann var 12 ára en hann á enn marga vini og ættingja í landinu.
„Ég á enn vini í Senegal sem ég kynntist í æsku. Við erum enn í góðu sambandi. Svo á ég fullt af ættingjum þarna. Amma mín er þarna, bræður pabba, systir mömmu og annað frændfólk. Við erum öll náin og ég er enginn túristi þó ég hafi ekki búið þarna frá ungaaldri. Í hvert skipti sem ég fer þarna þá líður mér eins og ég sé heima."
Hann æfði með úrvalsdeildarliði í Senegal og hugsaði um að semja þar.
„Ég verð að viðurkenna að það kom til greina að taka eitt tímabil í Senegal með félaginu sem er í úrvalsdeild þarna. Það kom til greina en ég heyrði neikvæða hluti um félagið og það gerði mig hræddan. Ég pældi mjög mikið í að taka eitt tímabil þarna. Maður heyrði sögur um leikmenn sem semja og fá svo ekki að fara. Ég var hræddur við það. Ég íhugaði að taka eitt tímabil þarna, ferskt tímabil og ég myndi spila öðruvísi fótbolta í hitanum. Á endanum ákvað að ég að gera það ekki."
Hjálpaði að æfa í sandi - Ekkert djamm
Í Senegal æfði Pape meðal annars í sandi og hann telur að það hafi hjálpað sér mikið við að yfirstíga meiðslin.
„Það er spilað á gervigrasi og líka í sandinum. Sandurinn er erfiðari. Sandurinn er ein af ástæðunum fyrir því að ég er orðinn góður af meiðslunum. Að venjast því að spila í sandinum var það erfiðasta sem ég gerði. Þetta er rosalegt en styrkir þig gríðarlega. Þú þarft tíma í að venjast sandinum, og það tók mig góðan tíma, nokkra mánuði. Ég þarf ekki að venjast grasi aftur. Eftir að hafa spilað í sandi þá er það auðvelt að komast á grasið aftur. Sandurinn er svo þungur. Stundum spiluðum við á gervgrasi, stundum á malarvelli og stundum í sandinum. Ég er tilbúinn í hvað sem er. Sandurinn hjálpaði fætinum upp á meiðslin að gera," segir Pape og bætir við að hann hafi ekki farið til Senegal til að djamma, langt því frá.
„Þér leiðist aldrei í Senegal. Það er alveg eðlilegt að fólk haldi að ég sé bara að fara þangað til að djamma en það er alls ekki rétt. Ég er löngu hættur að drekka til dæmis. Ég fór alls ekki þangað til að djamma. Ég og áfengi náum ekki saman lengur. Það eru tvö ár síðan ég hætti að drekka. Það var mitt markmið að losa mig við þetta og koma mér í gang."
„Það er margt hægt að gera þarna. Stundum ertu á ströndinni og það léttir að vera undir sólinni og í sandinum. Það er næg hvatning að vera bara að æfa þarna."
Á þessum tímapunkti slitnaði á línunni.
„Ég hélt áfram að tala. Hvar var ég eiginlega?"
Erfiður tími í Færeyjum en fór í reynslubankann
Sumarið 2018 var athyglisvert fyrir framherjann. Eftir að hafa verið í Senegal að æfa þá kom hann aftur heim og spilaði nokkra leiki með Víkingi Ólafsvík án þess að hafa gert samning við þá. Svo kom tilboð frá Færeyjum.
„Það er Íslendingur sem er búsettur í Noregi sem hafði oft samband við mig í nokkur ár. Hann var alltaf að spyrja mig hvort ég hefði áhuga á að spila í næst efstu deild í Noregi eða í Færeyjum. Það tímabilið var ég ekki á samningi. Ég var nýbúinn að klára samning við Ólafsvík. Ég fór til Senegal og þeir (Ólsarar) höfðu samband við mig á síðustu stundu um að koma. Ég var á hreyfingu þarna úti og þeir spurðu hvort ég vildi taka eitt tímabil í viðbót. Ég svaraði játandi en það var ekki talað um samning áður en ég kom til landsins."
„Þeir keyptu flugmiða fyrir mig. Ég var enn skráður sem Ólsari, mætti og spilaði nokkra leiki. Ég hjálpaði liðinu að komast í efri hlutann en mér var aldrei boðinn sá samningur sem ég vildi fá, og ég undirritaði ekki neitt. Ég skynjaði að þeir væru ekki að fara að bjóða mér samning sem ég yrði sáttur með. Ég lofaði að spila með þeim þangað til í júlí ef þeir myndu kaupa flug handa mér. Svo gætum við séð til; ef þeir myndu bjóða mér samning sem ég vildi þá yrði ég áfram en annars yrði mér frjálst að fara. Þeir voru sáttir með það," segir Pape.
„Ég kom heim, spilaði 6-7 leiki og svo kom þetta boð frá Færeyjum í gegnum þennan mann í Noregi. Þetta félag í Færeyjum hafði fylgst með mér í nokkurn tíma. Þau buðu fín laun sem mér fannst heillandi. Ég var tilbúinn að fara í helgarferð til Færeyja til að skoða málið. Þeir pöntuðu flug, ég var hóteli og þeir buðu mér að taka tvær æfingar. Ég lét Víking Ólafsvík vita að ég fékk samningstilboð í Færeyjum. Þeir sögðu 'ekkert mál' og sögðu mér að skoða þetta, og koma aftur."
„Það var sænskur þjálfari þarna, Glenn Stahl, og við erum góðir vinir. Ég fór á tvær æfingar, en þetta var ekkert spes staður. Þú þarft að taka ferju þangað. Þetta er eins og að vera í Reykjavík og ferðast til Vestmannaeyja. Þú tekur bát frá Þórshöfn. Ég fór þangað og skoðaði þetta. Þetta var ekkert spes, ekkert heillandi en þetta voru 4-5 mánuðir. Ég æfði með þeim og spjallaði við þá. 'Já okei gefið mér nokkra daga'."
„Ég tilkynnti Ejub (Purisevic) og Ólafsvík að ég fékk samning frá Færeyjum sem ég var ekki viss um að ég ætlaði mér að neita. Ég vildi hlusta á hvað þeir myndu segja og hvort þeir myndu toppa tilboðið. Það var aldrei boðið neitt. Á endanum sagðist ég þurfa að gera það sem væri best fyrir mig. Í júlí ætlaði ég til Færeyja. Ég sá að Ejub var ekki sáttur en frá byrjun sömdum við um að ég myndi vera þarna þangað til í júlí. Ég tók ákvörðun að fara til Færeyja og þeir skildu það. Ég spilaði tvo mikilvæga leiki í viðbót og síðasti leikurinn var á Akureyri gegn Þór. Við náðum að kveðjast í góðu. Svo fór ég til Færeyja og spilaði seinni hlutann á tímabilinu."
„Fyrsti leikurinn var gegn Heimi (Guðjónssyni) og félögum í HB. Í öðrum leiknum fór ég af stað og skoraði þrennu. Eftir annan leikinn var pása."
Það var pása eftir Ólafsvöku, þjóðhátíð þeirra Færeyinga. Pásan reyndist afdrifarík fyrir Pape.
„Við héldum áfram að æfa á fullu. Glenn ætlaði að koma mér í eins gott stand og mögulegt var. Á einni æfingunni var grenjandi rigning og ég í takkskóm á æfingu. Við vorum í tveimur á móti tveimur á hálfum velli. Einhvern veginn tók ég sprett upp í sókn og sný ökklann frekar illa. Ég var grenjandi af sársauka og var frá í mánuð. Þú fórst á æfingu og varst svo bara heima hjá þér á þessari eyju. Ég var í rúminu og á hækjum í heilan mánuð. Þar varð maður neikvæður, ég var einn þarna og maður var ekki að gera neitt."
„Þú ert alltaf að fara að missa formið niður í meiðslum. Ég kom til baka og byrjaði að spila hægt og rólega. Það voru heimastrákar í þessu liði plús fjórir, fimm útlendingar. Markmiðið var að halda sér í deildinni og við náðum því. Þetta félag var nýstofnað; þetta eru þrjú bæjarfélög sem spiluðu í sameinuðu félagi í fyrsta sinn. Þau voru ekki öll sammála og þetta var vesen. TB er stærst af þeim þremur og gömlu karlarnir eru stoltir. Þeir vildu breyta þessu aftur í gamla TB. Það var vesen í gangi á meðan tímabilið var að klárast. Félagið hélt ekki áfram, félögin þrjú fóru sína leið."
„Ég persónulega sjálfur var ekki viss um að ég yrði áfram í Færeyjum. Ég vildi bara prófa þetta og sé alls ekki eftir því. Ég var aldrei að fara að snúa aftur til Færeyja."
„Þarna byrjar neikvæðnin. Ég var meiddur. Það eina sem bjargar manni er að komast í ræktina og á æfingar. Þú verður þungur andlega ef það gerist ekki, þú verður neikvæður. Það er erfitt að vera jákvæður. Ég var aldrei að fara að vera áfram. Þetta var ekki alveg fyrir mig. Þú ert bara heima í rúminu að horfa á mynd. Þetta er fínt í 1-2 daga."
Pape segist hafa verið með ákveðna eftirsjá að hafa ekki klárað tímabilið í Ólafsvík.
„Ég hugsaði: 'Hefði ég ekki átt að vera aðeins þolinmóðari?' Strákarnir hjá Ólafsvík eru alltaf að segja það sama: 'Pape, hefðir þú ekki farið þá hefðum við farið upp í Pepsi Max-deildina.' Það var alveg rétt. Við vorum með sterkt lið. Við vorum í toppbaráttunni þegar ég fór. Þeir sömdu við hollenskan framherja sem náði ekki að hjálpa þeim eins mikið og ég gerði. Við náðum vel saman; ég, Gonzi og Kwame, og allir þessir gæjar sem voru þarna. Þetta var skemmtilegt lið."
„Á sama tíma buðu þeir mér aldrei samning. Mér líður eins og þeir hafi ekki reynt að sannfæra mig um að vera áfram. Þannig leið mér. Ég þurfti að gera það sem var best fyrir mig. Ég lofaði að vera í hálft tímabil. Ég vildi líka prófa eitthvað nýtt; þetta var fín reynsla í Færeyjum en á sama tíma mjög erfitt."
Minnir mig alltaf á það hver ég er
Eftir góða 15 mánuði í Senegal er Pape jákvæður á komandi tíma. Hann kveðst vera sterkari eftir nokkuð erfiða tíma.
„Mér finnst ég vera sterkari andlega núna. Ég veit ekki hvort þú skilur mig en þegar ég er í Senegal þá fatta ég alltaf hver ég er. Ég veit ekki hvort þú fattir mig en þetta minnir mig alltaf á það hver ég er," segir Pape.
„Ég er sterkari andlega, léttari og jákvæðari. Ég er tilbúinn í slaginn. Það er mjög gott að vera í Senegal. Ég held ég hafi verið í 15 mánuði og ég sé alls ekki eftir því. Ég sé alls ekki eftir að hafa tekið ákvörðunina um að koma ekki til Íslands í júlí og pína mig. Þótt ég hefði sagt í viðtalinu í fyrra að ég ætlaði að reyna að komast að hjá félagi, þá er þetta er það besta ákvörðun sem ég hef tekið að sleppa tímabilinu 2020. Ég gleymi þessu tímabili bara og verð 100 prósent tilbúinn þegar ég stíg aftur út á völlinn."
Hann er ekki tilbúinn að hætta strax, hann jú er bara þrítugur.
„Síðustu árin hefur maður komið fram stundum og sagst ekki finna gleðina í boltanum. Þú verður þakklátur í gegnum meiðslin, þakklátur fyrir tækifærin og að fá að taka þátt. Það er ástríðan sem hvatti mig áfram. Ég get ekki ímyndað mér að hætta í fótbolta, ekki strax. Þetta er það eina sem maður þekkir."
Skil vel að fólk efist - Tilbúinn að mæta á æfingar
Sóknarmaðurinn hefur enn sem komið er ekki heyrt í neinum félögum hér á landi. Hann er tilbúinn að mæta á æfingar til að sanna sig.
„Ég hef ekki heyrt neitt í félögum hérna. Ég geri mér grein fyrir því að ég er að koma úr erfiðum meiðslum og félög efist um ástandið á mér. Það er auðvelt að vera að blaðra í þessu viðtali að ég sé í formi og hitt og þetta. Mér finnst ég vera í fínu formi og ég hef lagt á mig mikla vinnu úti. Ég er að koma úr erfiðum meiðslum og spilaði ekkert síðasta sumar. Ég skil vel að fólk efist, en ég get ekkert gert í því. Það eina sem ég get sagt er að ég lagði mig fram og ég lagði mikla vinnu á mig á meðan ég var úti."
„Ef eitthvað félag hefur áhuga þá er ég tilbúinn að mæta á æfingar. Ég er nokkuð viss um að æfingarnar ljúgi ekki. Það sést hverjir hafa verið að æfa og hverjir ekki. Mér finnst ég vera í fínu formi. Ættingjarnir voru fyrstir að segja við mig að ég væri feitur og þeir voru fyrstir að segja við mig að ég væri tilbúinn. Þau munu ekki segja það við mig til að sleikja mig upp. Þau voru fyrst til að segja við mig að ég væri tilbúinn: 'taktu töskurnar þínar og farðu heim'."
„Maður verður að vera hreinskilinn við sjálfan sig. Ég spilaði fullt af leikjum þarna en það var enginn keppnisleikur. Ég spilaði ekkert í fyrra. Ég er með það mikið sjálfstraust að ég ætti að geta spilað í næst efstu deild eftir alla þá vinnu sem ég hef lagt á mig. Næst efsta deild er deildin sem ég sé sjálfan mig í, ég gæti gert einhverja hluti þar. Ég útiloka ekki neitt, ekki neitt. Mér finnst ég geta reynt fyrir mér í næst efstu deild en svo kemur í ljós hvað verður í boði."
„Ég spilaði fullt af leikjum. Ég spilaði fullt af leikjum, alveg endalaust af æfingaleikjum. Það var erfitt í byrjun, alveg mjög erfitt. Þegar þú ert svona lengi frá þá ertu týndur inn á vellinum. Hvað hefur gerst? Þetta var aðallega þyngdin hjá mér, ég var þungur og hreyfingarnar voru horfnar. Fyrstu leikirnir voru erfiðir en um leið og maður komst í betra form þá var maður farinn að skora eins og maður vildi; tvennur og þrennu. Það var gaman," segir Pape Mamadou Faye.
Hinn þrítugi Pape er uppalinn í Fylki, en hefur einnig leikið með Leikni Reykjavík, Grindavík, Víkingi Reykjavík, Vestra (þá BÍ/Bolungarvík), Víkingi Ólafsvík og Þrótti Vogum á sínum ferli hér á landi.
Eftir klukkutíma langt spjall þá skellti þessi virkilega skemmtilega persónuleiki á. Kannski að það verði hægt að nota fyrirsögn um 'Romelu Lukaku íslenska boltans' í sumar. Það er vonandi að það tækifæri gefist.
Athugasemdir