Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 25. nóvember 2015 15:20
Magnús Már Einarsson
„Mjög ánægðir með kaupverðið fyrir Patrick"
Patrick varð markahæstur í Pepsi-deildinni árið 2015.
Patrick varð markahæstur í Pepsi-deildinni árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Valur hefur samþykkt tilboð frá norska félaginu Viking í framherjann Patrick Pedersen. Þetta staðfesti Sigurður K. Pálsson, stjórnarmaður hjá Val, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Það eru búnar að vera lengi viðræður við Viking Stavanger vegna Patrick Pedersen og það hafa mörg tilboð komið. Í dag er komið samkomulag á milli félaganna, með þeim fyrirvara að leikmaðurinn standist læknisskoðun hjá VIking og semji um sín launakjör þar," sagði Sigurður við Fótbolta.net í dag.

433.is segir að kaupverðið sé yfir 30 milljónir króna og Sigurður viðurkennir að Valsmenn séu mjög ánægðir með niðurstöðuna.

„Við erum mjög ánægðir með þetta kaupverð sem við erum að fá fyrir Patrick enda er Patrick frábær leikmaður. Við höfum fulla trú á því að hann eigi eftir að verða mikill fengur fyrir Viking. Hann er í uppsveiflu og hefur gert frábæra hluti fyrir okkur. Í framhaldinu óskum við honum velgengni úti hjá þeim."

Valsmenn ætla að fá nýjan framherja í hópinn til að fylla skarð Patrick. „Við þurfum að leita að allavega einum senter og sú leit er hafin," sagði Sigurður.

Guðjón Pétur Lýðsson samdi við Val í haust en á Hlíðarenda er sett stefna á að fá fleiri nýja leikmenn fyrir sumarið. „Við ætlum að styrkja hópinn. Við erum með nokkra leikmenn í sigtinu sem við erum að skoða. Við erum í vinnu með þjálfarateyminu að skoða landslagið," sagði Sigurður.
Athugasemdir