99 dagar í fyrsta leik Íslands á HM
Í dag eru 99 dagar í að Ísland mæti Argentínu á HM í Rússlandi. Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður Burnley og íslenska landsliðsins, segir að spennan sé alltaf að aukast fyrir sumrinu.
„Maður er farinn að horfa aðeins meira á þetta en samt óvenju lítið. Ég held að það sé gott að hugsa ekki of mikið um þetta. Sérstaklega þegar maður er að spila, þá vill maður ekki hugsa um að maður sé að fara að meiðast eða eitthvað svoleiðis kjaftæði," sagði Jóhann Berg við Fótbolta.net í viðtali á æfingasvæði Burnley í vikunni.
„Um leið og þú ferð hræddur inn í leiki og ert hræddur um að meiðast þá er líklegra að það gerist. Ég fer inn í hvern leik eins og ég geri alltaf og er ekki að hugsa um neitt annað en að gera vel í þeim leik."
„Fjölskyldan er búin að vera bóka ferðir og maður heyrir að miðar eru að detta í hús. Það er fullt af dóti í kringum þetta sem maður heyrir frá Íslandi og í fréttunum svo maður kemst ekki hjá því að hugsa eitthvað um þetta. Ég reyni samt að hugsa ekki of mikið um þetta því það eru ennþá nokkrir mánuðir í þetta."
Mikil umræða á Englandi
Jóhann finnur fyrir áhuga á HM á Englandi en fólk er spennt fyrir því að sjá Ísland á HM í fyrsta skipti.
„Það er alltaf verið eitthvað að tala um þetta. Sérstaklega fyrsta leikinn á móti Argentínu. Það er mikið talað um hann. Þó að ég vilji ekki hugsa of mikið um þetta þá er ég ekki að neita því að eiga samræður um þetta. Þetta er í fyrsta skipti sem við förum á HM og það er gaman."
Englendingar eru vel minnugir þess þegar Ísland sigraði 2-1 í viðureign þjóðanna í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi 2016. Jóhann segist hafa fengið hrós frá Englendingum eftir þann leik.
„Eftir að við hentum Englandi úr Evrópumótinu voru allir mjög jákvæðir. Þeir sögðu að við höfðum verið betri og það var engin neikvæðni. Það var mjög gaman. Það vita allir hversu góðir Íslendingar eru í fótbolta núna," sagði Jóhann sem er ánægður með að Ísland mæti Englandi ekki á HM í sumar.
„Það er alltaf gaman að hafa þetta á þá. Ég var að vonast eftir að mæta Englandi ekki aftur. Það var fínt að klára þá á EM og þá var það búið. Þetta kemur við og við upp í umræðunni að við höfum hent þeim út af stórmóti," sagði Jóhann en Englendingar vildu sjálfir ekki lenda með Íslandi í riðli á HM.
„Það hefði ekki verið sérstakt fyrir þá að tapa oftar fyrir okkur Íslendingum," sagði Jóhann brosandi. „Þetta var magnaður leikur og fínt að halda því svoleiðis."
Margir eiga eftir að halda með Íslandi
Möguleiki er á að Jóhann Berg verði eini leikmaður Burnley á HM. Belgíski miðjumaðurinn Steven Defour fór í aðgerð á dögunum og verður ekki með á HM í sumar. Markverðirnir Nick Pope og Tom Heaton gera þó tilkall í hópinn sem og miðvörðurinn James Tarkowski.
„Við eigum einhverja Englendinga sem gætu átt séns á að fara. Við eigum tvo markmenn sem eiga mjög góðan séns og svo gætu aðrir komist í hópinn," sagði Jóhann.
Líklegt er að margir stuðningsmenn Burnley eigi því eftir að standa með Íslendingum á HM í Rússlandi.
„Það eru örugglega margir sem eiga eftir að halda með okkur sem aukalið og fylgjast með okkur. Það verða ekki bara Íslendingar sem halda með Íslandi á HM í sumar. Það er fullt af liði sem mun halda með okkur af því að við erum litla þjóðin, svipað og á EM. Það fíla flestir þetta underdogs dæmi. Það verða örugglega fullt af stuðingsmönnum Burnley og öðrum sem munu halda með okkur. Það eru margir sem fíla Ísland í dag," sagði Jóhann að lokum.
Athugasemdir