Hver fyllir skarð Patrick Pedersen?
Íslandsmeistarar Vals hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku en félagið seldi í dag markahrókinn Patrick Pedersen til Sheriff Tiraspol í Moldavíu. Valur spilaði við Sheriff í Evrópudeildinni í sumar og þar vakti Patrick athygli félagsins.
Patrick hefur skorað 47 mörk í 72 leikjum í Pepsi-deildinni með Val en hann varð markakóngur á síðasta tímabili með 17 mörk.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net gæti Valur reynt að krækja í Gary Martin framherja Lilleström til að fylla skarð Patrick. Gary hefur áhuga á að snúa aftur í Pepsi-deildina en hann staðfesti á dögunum að Stjarnan hefði sýnt sér áhuga.
Gary er væntanlega á förum frá Lilleström en hann hefur spilað með ÍA, KR og Víkingi R. á Íslandi á ferli sínum.
Óttar Magnús Karlsson, framherji Molde, hefur æft með Val undanfarna daga samkvæmt frétt 433.is í dag. Óttar Magnús var á láni hjá Trelleborg í Svíþjóð í ár en hann gæti verið á leið aftur heim í Pepsi-deildina.
Framherjinn Garðar Bergmann Gunnlaugsson kom til Vals frá ÍA á dögunum en liðið hefur líka misst Tobias Thomsen til KR frá síðasta tímabili.
Athugasemdir