Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   fös 01. maí 2020 17:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Valur að fá Aron á láni: Hann er góður leikmaður
Vonast til þess að gengið verði frá því um helgina
Aron er að koma í Val frá Ujpest í Ungverjalandi.
Aron er að koma í Val frá Ujpest í Ungverjalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir er á leið í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Vals.
Heimir er á leið í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmenn eru að reyna að fá kantmanninn Aron Bjarnason lánaðan frá Ujpest í Ungverjalandi fyrir tímabilið sem framundan er í Pepsi Max-deildinni.

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, segir í samtali við Fótbolta.net að vonast sé til þess að það verði gengið frá því núna um helgina. „Við erum að reyna að fá hann lánaðan og við vonum að það klárist um helgina," sagði Heimir í viðtali við Fótbolta.net.

Ujpest í Ungverjalandi keypti Aron frá Breiðabliki síðastliðið sumar en hann lék frábærlega með Blikum fyrri hluta tímabils í fyrra. Aron spilaði lítið með Ujpest síðustu vikurnar áður en keppni var hætt þar í landi vegna kórónaveirunnar.

„Hann er góður leikmaður og stóð sig vel með Breiðabliki á síðustu leiktíð. Við erum vongóðir að hann geti hjálpað okkur ef lánssamningurinn næst í gegn."

Ekki heyrt um óánægju í leikmannahópnum
Því var haldið fram í Dr. Football að óánægja væri í leikmannahópi Vals vegna komu Arons. „Það sýður á leikmönnum Vals," sagði Kristján Óli Sigurðsson.

„Þeir eru að taka á sig 25 prósent launalækkun og svo er verið að fá inn gæa á alvöru samningi rétt fyrir mót. Hópurinn er alveg nógu stór til að landa öllum titlum."

Um það segir Heimir: „Ég hef ekki heyrt það. Það er engin óánægja í leikmannahópnum, ekkert sem ég hef heyrt."

Stefnt er á að hefja leik í Pepsi Max-deildinni 13. júní með spennandi opnunarleik á milli Vals og KR. Valsmenn byrja að æfa í litlum hópum í næstu viku, en undanfarnar vikur hafa leikmenn verið að gera heimaæfingar og hafa samskipti verið í gegnum myndbandsforritið Zoom.

„Við erum búnir að skipuleggja fyrstu vikuna. Það er búið að vera langt stopp og menn eru spenntir að byrja aftur," segir Heimir sem er að fara inn í sitt fyrsta tímabil með Hlíðarendaliðið, en Valur hafnaði í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili.

Sjá einnig:
Fyrsta umferð Pepsi Max á þremur dögum - Allir leikirnir stakir
Athugasemdir
banner