Báðum leikjum dagsins í Lengjudeild karla lauk með 2-2 jafntefli en Dalvík/Reynir og Grótta deildu stigunum á Dalvík á meðan Fjölnismenn nældu sér í stig í Vestmannaeyjum.
Heimamenn í Dalvík/Reyni tóku forystuna gegn Gróttu á 14. mínútu eftir góða pressu. Áki Sölvason fékk boltann og kom honum í netið.
Amin Guerrero Touiki tvöfaldaði forystuna á 30. mínútu eftir laglega sendingu frá Frey Jónssyni. Amin var öflugur í pressunni í fyrra markinu og má segja að hann hafi komið að báðum mörkunum.
Staðan 2-0 í hálfleik en Gróttumenn komu sterkir inn í síðari hálfleikinn.
Gabríel Hrannar Eyjólfsson minnkaði muninn eftir að hann fékk laglega sendingu inn fyrir frá Axel Sigurðarsyni.
Gestirnir voru líklegri í síðari hálfleiknum og sköpuðu sér urmul af færum. Jöfnunarmarkið kom á 82. mínútu en Damian Timan skoraði markið úr umdeildri vítaspyrnu.
Seint í uppbótartíma fékk Chris Brazell, þjálfari Gróttu, að líta beint rautt spjald. Brazell var ósáttur með að hafa ekki fengið aukaspyrnu.
Lokatölur 2-2 á Dalvík. Heimamenn eru með 6 stig en Grótta 9 stig.
Jafnt í Eyjum
ÍBV og Fjölnir gerðu sömuleiðis 2-2 jafntefli þegar þau mættust á Hásteinsvelli.
Leikurinn var hin mesta skemmtun frá byrjun til enda. Máni Austmann Hilmarsson kom Fjölni yfir á 9. mínútu en Oliver Heiðarsson svaraði fyrir Eyjamenn aðeins fjórum mínútum síðar.
Fjörið hélt áfram þremur mínútum eftir mark Eyjamanna en þá skoraði Guðjón Ernir Hrafnkelsson. Fjölnismenn fengu hornspyrnu, en töpuðu boltanum og keyrðu Eyjamenn hratt upp.
Guðjón lék á varnarmann áður en hann skoraði annað mark ÍBV í leiknum.
Eyjamenn voru með algera yfirburði stærstan hluta fyrri hálfleiks og eiginlega ótrúlegt að liðið hafi ekki farið með veglegri forystu inn í hálfleikinn.
Liðinu tókst ekki að nýta yfirburði sína og getur það reynst hættulegt þegar færin eru ekki nýtt. Það var sagan í dag, en þegar aðeins fimmtán mínútur voru eftir jafnaði Axel Freyr Harðarson.
Fjölnismenn hreinsuðu langt fram völlinn á Mána, sem fékk að snúa áður en hann fann Axel í hlaupi úti hægra megin. Axel lyfti boltanum snyrtilega yfir Hjörvar Daða Arnarsson.
Sjö mínútum fyrir leikslok voru Eyjamenn hársbreidd frá þriðja marki sínu. Fyrirgjöfin kom frá hægri og rúllaði boltinn eftir marklínunni áður en Fjölnismenn hreinsuðu frá.
NIðurstaðan 2-2 jafntefli. Eyjamenn geta verið svekktir eftir mikla yfirburði en Fjölnismenn eflaust hæstánægðir með stigið. ÍBV er með 6 stig en Fjölnir 11 stig.
Dalvík/Reynir 2 - 2 Grótta
1-0 Áki Sölvason ('16 )
2-0 Amin Guerrero Touiki ('30 )
2-1 Gabríel Hrannar Eyjólfsson ('53 )
2-2 Damian Timan ('82 )
Rautt spjald: Christopher Arthur Brazell, Grótta ('95) Lestu um leikinn
ÍBV 2 - 2 Fjölnir
0-1 Máni Austmann Hilmarsson ('9 )
1-1 Oliver Heiðarsson ('13 )
2-1 Guðjón Ernir Hrafnkelsson ('16 )
2-2 Axel Freyr Harðarson ('75 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍBV | 22 | 11 | 6 | 5 | 50 - 27 | +23 | 39 |
2. Keflavík | 22 | 10 | 8 | 4 | 37 - 24 | +13 | 38 |
3. Fjölnir | 22 | 10 | 7 | 5 | 34 - 28 | +6 | 37 |
4. Afturelding | 22 | 11 | 3 | 8 | 39 - 36 | +3 | 36 |
5. ÍR | 22 | 9 | 8 | 5 | 30 - 28 | +2 | 35 |
6. Njarðvík | 22 | 8 | 9 | 5 | 34 - 29 | +5 | 33 |
7. Þróttur R. | 22 | 8 | 6 | 8 | 37 - 31 | +6 | 30 |
8. Leiknir R. | 22 | 8 | 4 | 10 | 33 - 34 | -1 | 28 |
9. Grindavík | 22 | 6 | 8 | 8 | 40 - 46 | -6 | 26 |
10. Þór | 22 | 6 | 8 | 8 | 32 - 38 | -6 | 26 |
11. Grótta | 22 | 4 | 4 | 14 | 31 - 50 | -19 | 16 |
12. Dalvík/Reynir | 22 | 2 | 7 | 13 | 23 - 49 | -26 | 13 |
Athugasemdir