fös 11. nóvember 2022 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: KR 
Perry tekur við KR (Staðfest)
Perry
Perry
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur samið við Perry Mclachlan um að taka við sem aðalþjálfari kvennaliðs félagsins. KR segir frá því að með honum í þjálfarateyminu verða Vignir Snær Stefánsson aðstoðarþjálfari og Melkorka Rán Hafliðadóttir styrktarþjálfari. Vignir er fyrrum leikmaður Víkings Ólafsvíkur og Þórs og var aðstoðarþjálfari kvennaliðs Gróttu í sumar.

Melkorka á að baki afreksíþróttaferil í frjálsum og er í meistaranámi í íþróttafræði hjá HR. Hún þekkir vel til í KR þar sem hún sinnti styrktarþjálfun meistaraflokks karla á nýliðnu tímabili og að hluta hjá kvennaliðinu.

Perry hefur þjálfað á Íslandi frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Þórs og markmannsþjálfari, svo sem aðstoðarþjálfari Þór/KA og í sumar var hann annar af aðalþjálfurum liðsins.

Þá hefur Perry einnig töluverða reynslu af þjálfun á Englandi og í Bandaríkjunum. Var meðal annars hjá kvennaliði Chelsea sem og akademíu drengja og stúlkna í félaginu og um tíma við markmannsþjálfun hjá Crystal Palace og yfirþjálfari stúlkna- og drengjaliða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Á heimasíðu KR segir að Perry sé að ljúka við UEFA-A þjálfaragráðu.

Perry tekur við af þeim Christopher Harrington og Arnari Páli Garðarssyni sem þjálfuðu liðið frá því snemma á tímabilinu. Liðið féll úr Bestu deildinni og spilar í Lengjudeildinni á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner