
„Mér fannst við slakar í fyrri hálfleik en geggjaðar í þeim seinni og ég er bara ánægð með þetta,“ sagði Katla María Þórðardóttir sem átti frábæran leik í 1-0 sigri Fylkis á Selfoss.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 0 Selfoss
„Mér fannst vera stress í okkur í byrjun. Þetta var fyrsti í Pepsi en svo ákváðum við bara að gefa allt í seinni hálfleikinn og klára þetta. Við vitum hvað við getum,“ sagði Katla María sem steig varla feilspor í hjarta varnarinnar hjá Fylki. Það munaði þó ekki miklu að draumaframmistaðan breyttist í martröð þegar vítaspyrna var dæmd á Kötlu á lokamínútunum.
„Það var algjört kjaftæði. Þetta var aldrei víti. Ég var ekki ánægð með þetta en svona er þetta bara,“ sagði Katla sem sagðist hafa treyst á Cecilíu markvörð þegar vítaspyrnan var dæmd. Cecilía þurfti þó ekki að verja því Magdalena Anna Reimus setti spyrnuna framhjá Fylkismarkinu. Réttlætinu var þar mögulega fullnægt en vítaspyrnudómurinn virtist rangur úr stúkunni séð.
„Þetta gefur okkur sjálfstraust og við tökum það með okkur í leikinn á móti KR,“ sagði Katla sem stefnir á toppinn í sumar.
„Við ætlum bara alla leið. Ekkert kjaftæði, við ætlum bara að taka þetta.“
Hægt er að horfa á allt viðtalið við Kötlu í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir