Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
laugardagur 18. maí
Lengjudeild karla
föstudagur 17. maí
Mjólkurbikar karla
mánudagur 13. maí
Lengjudeild kvenna
þriðjudagur 7. maí
Lengjudeild kvenna
mánudagur 6. maí
Besta-deild karla
Lengjudeild kvenna
laugardagur 4. maí
2. deild karla
Besta-deild karla
Lengjudeild karla
miðvikudagur 1. maí
Lengjudeild karla
mánudagur 29. apríl
Besta-deild karla
þriðjudagur 23. apríl
föstudagur 19. apríl
þriðjudagur 16. apríl
Meistarar meistaranna konur
mánudagur 15. apríl
Besta-deild karla
föstudagur 12. apríl
Besta-deild karla
þriðjudagur 9. apríl
Undankeppni EM kvenna
föstudagur 17. maí
Engin úrslit úr leikjum í dag
þri 18.apr 2023 19:30 Mynd: Hulda Margrét - Stöð 2 Sport
Magazine image

Frá Kína til Keflavíkur - Dreymir um að spila á Ólympíuleikum og HM í framtíðinni

Linli Tu er einn áhugaverðasti leikmaður Bestu deildar kvenna fyrir tímabilið sem er framundan. Hún kom til Íslands í fyrra og spilaði með Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í Lengjudeildinni. Hún endaði sem markadrottning deildarinnar og skipti yfir í Keflavík fyrir tímabilið sem hefst í næstu viku. Linli er frá Kína og ólst þar upp en er núna á leið í sitt annað tímabil á Íslandi eftir stopp í Bandaríkjunum.

Linli á æfingu hjá Keflavík.
Linli á æfingu hjá Keflavík.
Mynd/Keflavík
Kom fyrst inn í landsliðsumhverfi hjá Kína þegar hún var 13 ára.
Kom fyrst inn í landsliðsumhverfi hjá Kína þegar hún var 13 ára.
Mynd/Aðsend
Linli í leik með kínverska landsliðinu.
Linli í leik með kínverska landsliðinu.
Mynd/Aðsend
Sigurður Ragnar valdi Linli í landsliðshóp hjá Kína þegar hann var þjálfari þar.
Sigurður Ragnar valdi Linli í landsliðshóp hjá Kína þegar hann var þjálfari þar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Linli í leik með Fjarðab/Hetti/Leikni á síðustu leiktíð.
Linli í leik með Fjarðab/Hetti/Leikni á síðustu leiktíð.
Mynd/Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með Taylor University.
Lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum með Taylor University.
Mynd/Taylor University
'Ef ég á að vera hreinskilinn þá hugsaði ég fyrst að Ísland væri miklu kaldara en ég bjóst við að það yrði'
'Ef ég á að vera hreinskilinn þá hugsaði ég fyrst að Ísland væri miklu kaldara en ég bjóst við að það yrði'
Mynd/Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Var markadrottning Lengjudeildarinnar í fyrra.
Var markadrottning Lengjudeildarinnar í fyrra.
Mynd/Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Í leik gegn Breiðabliki í bikarnum.
Í leik gegn Breiðabliki í bikarnum.
Mynd/Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari F/H/L sannfærði Linli um að koma til Íslands.
Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari F/H/L sannfærði Linli um að koma til Íslands.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar marki á síðasta tímabili.
Fagnar marki á síðasta tímabili.
Mynd/Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir
Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur.
Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur.
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ætlar að gera góða hluti með Keflavík.
Ætlar að gera góða hluti með Keflavík.
Mynd/Keflavík
Keflavík er spáð áttunda sæti Bestu deildarinnar í ár.
Keflavík er spáð áttunda sæti Bestu deildarinnar í ár.
Mynd/Hrefna Morthens
Þegar Linli Tu kom fyrst til Íslands þá lýstu kínverskir fjölmiðlar henni sem vonarstjörnu en miklar vonir eru bundnar við hana í því risastóra landi. Hún gekk í raðir Fjarðab/Hattar/Leiknis á litla Íslandi og sýndi að það er margt í hennar leik spunnið. Hún skoraði 16 mörk í 17 deildarleikjum og var markadrottning Lengjudeildarinnar.

En hvernig endar vonarstjarna frá Kína á Íslandi?

„Fyrir tveimur árum síðan sagði þjálfarinn minn úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum mér frá PSC Soccer Academy og ég fór í út frá því í fótboltaprufur hjá þeim í Orlando í Flórída. Þar fékk ég tækifæri til að kynnast þjálfurum, þar á meðal frá Íslandi," segir Linli í samtali við Fótbolta.net.

„Eftir prufurnar þá sýndu tveir þjálfarar frá Íslandi mér áhuga. Ég hugsaði í kjölfarið að þetta væri gott tækifæri fyrir mig til að spila í Evrópu. Ég vildi fá nýja áskorun og tók því snögglega ákvörðun um að koma hingað eftir að ég kláraði háskólagráðuna mína."

Var fyrirliði U17 landsliðs Kína
Linli byrjaði átta ára að spila fótbolta í Kína. Fram kemur í fjölmiðlum í heimalandinu að hún hafi líka lært dans en valið fótboltann fram yfir.

„Það er öðruvísi að spila íþróttir í Kína."

„Ég byrjaði að spila fótbolta í Kína þegar ég var átta ára og spilaði fyrst fyrir kínverska landsliðið þegar ég var 17 ára gömul. Ég hef tekið þátt í landsliðverkefnum síðan ég var 13 ára," segir Linli en hún naut mikillar velgengni með yngri landsliðum Kína.

„Við urðum Asíumeistarar U14 landsliða árið 2012, Ólympíumeistarar í okkar aldursflokki árið 2014 og lentum við í öðru sæti á Asíuleikunum U16 ára árið 2015. Ég var valin mikilvægasti leikmaðurinn á unglingamóti sem var haldið af kínverska fótboltasambandinu í Weifang árið 2016. Ég spilaði svo minn fyrsta landsleik árið 2017 og var á stórum í hóp fyrir Ólympíuleika árið 2018."

Það er allt öðruvísi að spila fótbolta í Kína en á Íslandi. Þegar þú ert komin inn í landsliðsumhverfið þá æfirðu eins og atvinnumaður.

„Það er öðruvísi að spila íþróttir í Kína. Við æfum eins og atvinnufólk frá unga aldri og það er erfitt að finna tímann fyrir skóla. Við ferðumst í mismunandi borgir til að æfa og stundum ferðumst við til annarra landa til að æfa og keppa. Frá mánudegi til laugardags æfum við eiginlega alltaf tvisvar á dag og tvo klukkutíma í senn. Ég var mjög upptekin við fótboltann þegar ég var yngri og fékk nánast engan tíma fyrir sjálfa mig. En þetta var skemmtileg reynsla."

Siggi Raggi valdi hana í A-landsliðið
Linli er fjölhæfur leikmaður en hún byrjaði feril sinn sem miðvörður og náði góðum árangri þar. Eftir því sem leið á þá fór hún að færast framar á völlinn og er hún í dag sóknarmaður. Hún virðist finna sig frábærlega í þeirri stöðu.

Linli var til að mynda valin í A-landsliðshóp hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem varnarmaður. Sigurður Ragnar var landsliðsþjálfari Kína frá 2017 til 2018.

„Það er mikil pressa að spila með kínversku landsliðunum. Ég átti í miklum vandræðum með sjálfstraustið mitt fyrst um sinn. En þessi reynsla hefur kennt mér að vera sterk andlega og líkamlega. Ég gefst aldrei upp. Að spila fyrir þjóð mína hefur mótað minn kraft og sýnt mér að allt er mögulegt."

Þegar hún er spurð að því hvað sé hennar besta minning frá kínverska landsliðsumhverfinu þá segir hún: „Ég man að ég spilaði einu sinni á stóru móti þar sem ég var síðust til að taka vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni. Ef ég skoraði þá yrðum við meistarar."

„Ég skoraði úr spyrnunni og ég man hvernig stuðningsmennirnir öskruðu, hvernig liðsfélagarnir hlupu að mér og ég man eftir að þjálfararnir felldu tár. Þetta var mikil sælutilfinning og eitthvað sem ég gleymi seint, gleymi aldrei."

Heilt yfir þá naut ég tímans mjög í Bandaríkjunum
Að vera í landsliðsumhverfinu í Kína var mjög tímafrekt og hafði áhrif á menntun Linli. Hún ákvað að fara til Bandaríkjanna í háskóla þar sem hún gat spilað fótbolta og menntað sig líka.

„Ég náði ekki að læra mikið eftir að ég varð 13 ára og fór að taka þátt í landsliðsverkefnum. Ég ákvað að fara til Bandaríkjanna og sækja mér góða menntun þar," segir Linli en hún fór í Taylor háskólann sem er einkarekinn kristilegur háskóli í smábæ í Indiana í Bandaríkjunum, en Linli er mjög trúuð og því hentaði sá skóli henni mjög vel.

„Ég var í allt öðrum sporum en aðrir nemendur þar sem ég var ekki komin eins langt námslega séð. Ég fékk eiginlega að móta námið eftir mínu höfði og það hentaði mér vel. Ég lærði alþjóðlega íþróttaviðskiptafræði (e. international sport business) og það gekk vel."

Linli útskrifaðist áður en hún kom til Íslands í fyrra.

„Heilt yfir þá naut ég tímans mjög í Bandaríkjunum. Ég fékk að kynnast því hver ég er utan fótboltans, fékk að kynnast sjálfri mér betur. Ég eignaðist góða vini sem koma frá mörgum mismunandi stöðum í heiminum. Að hlusta á þeirra sögur fékk mig virkilega til að meta fjölbreytileikann. Mikilvægast var að ég gat fengið tækifæri til að gera það sem mig langar að gera, að láta drauminn minn rætast," segir Linli.

Ísland miklu kaldara en ég bjóst við
Hún kom til Íslands í fyrra, flutti á Austurlandið og segir hún að það hafi ekki verið mjög frábrugðið lífinu í Bandaríkjunum þar sem hún bjó í smábæ þar líka. Helsti munurinn var veðrið en hún hafði ekki fengið að kynnast slíkum kulda áður.

„Það var gaman að sjá hvernig gleðin skein úr andlitum þeirra þegar þau spiluðu fótbolta."

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá hugsaði ég fyrst að Ísland væri miklu kaldara en ég bjóst við að það yrði. Ég hugsaði líka um það hversu hreint loftið er og hversu gott vatnið er hérna," segir Linli og bætir við: „Það sem er í uppáhaldi hjá mér við Ísland er vatnið, loftgæðin, himininn og fallega landslagið."

„Ég fór í lítinn einkareikinn háskóla í Bandaríkjunum. Taylor háskóli var með um 2000 nemendur þegar ég var þar. Skólinn er í mjög litlum bæ í Indiana sem heitir Upland. Þegar ég kom fyrst til Íslands þá var það ekkert mikið öðruvísi."

„Það tók mig líklega um mánuð að byrja að líða vel hérna. Ég var aðallega smá tíma að venjast veðrinu. Ég naut þess virkilega mikið að fara í ferðalög með vinum mínum í liðinu þegar við fengum frí. Við fórum mikið í Vök böðin og reyndum að elta sólina eins og við gátum," segir Linli en þegar hún var fyrir austan þá var hún líka að þjálfa börn á svæðinu.

„Ég var líka að þjálfa hjá félaginu. Ég myndaði sterk tengsl við börnin á svæðinu og það var gaman að sjá hvernig gleðin skein úr andlitum þeirra þegar þau spiluðu fótbolta, að sjá ástríðuna sem þau hafa fyrir leiknum."

Linli átti líkt og áður segir mjög gott tímabil þar sem hún var markadrottning deildarinnar. „Ég lagði mikið á mig og æfði mjög vel. Ég er ánægð með að það borgaði sig og skilaði sér inn á vellinum."

„Ég var mjög einbeitt á það að vera besta fótboltakonan sem ég gæti verið á hverjum degi. Þjálfarinn gaf mér líka mikið traust hvað varðar að leiða liðið áfram og ég er líka mjög þakklát fyrir liðsfélagana mína sem höfðu líka trú á mér," segir þessi öfluga fótboltakona.

Stefnir á að spila á HM og á Ólympíuleiknum
Linli var eftirsótt fyrir tímabilið, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Hún fór til að mynda á reynslu til PSV Eindhoven í Hollandi. Hún valdi hins vegar að taka skref upp á við á Íslandi, henni langaði að prófa það.

„Ég stefni á að spila á hæsta stigi leiksins."

„Það voru margir möguleikar í Kína og á Íslandi og líka annars staðar eins og í Hollandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum. En ég hef ekki spilað í Bestu deildinni og ég vil sjá hversu vel ég get staðið mig í þeirri deild," segir Linli en Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, hafði mikil áhrif á það að hún valdi félagið.

„Það skipti mestu máli að ég kann mjög vel við þjálfarann í Keflavík. Hann var í svipuðum sporum og ég þegar hann var leikmaður. Hann spilaði sem sóknarmaður og það geri ég líka, hann kom líka frá öðru landi til Íslands og spilaði með landsliði sínu. Mér finnst hann vera rétti þjálfarinn fyrir mig svo ég geti þróað mig áfram sem leikmaður."

„Ég veit ekki hversu lengi ég mun búa á Íslandi. Ég er með það í huganum að skoða fleiri möguleika á ferlinum en ég spyr mig klárlega á hverjum degi hvernig lífið verður ef ég held áfram að búa á Íslandi. Það eru allir svo rólegir hérna og fylgja með straumnum. Það er skemmtilegt."

Hún er með stór markmið fyrir framtíðina.

„Mín markmið eru klárlega að hjálpa Keflavík að vera í efri hluta deildarinnar í ár. Ég stefni líka á það að spila með kínverska landsliðinu á HM og Ólympíuleikunum í framtíðinni. Ég stefni á að spila á hæsta stigi leiksins."

Að lokum var Linli spurð út í íslenskuna, hvort hún væri búin að læra eitthvað. Hún sagði: „Ég þekki bara nokkur orð. Ég veit ekki hvort ég muni læra íslensku en ég er tilbúin að reyna. Það er mjög erfitt fyrir mig að segja mörg orð."

Líkt og segir hér að ofan er Linli Tu einn af áhugaverðari leikmönnum Bestu deildarinnar en það verður ansi fróðlegt að fylgjast með henni í sumar og í framtíðinni.

Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 8. sæti
Hin hliðin - Kristrún Ýr Holm (Keflavík)
Athugasemdir
banner