
Íslenska landsliðið fór til Frakklands í gær eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Sviss í Þjóðadeildinni í Zurich í fyrrakvöld.
Flogið var til Parísar eftir hádegið í gær og við lendingu og nokkra bið eftir töskum tók við þriggja tíma rútuferð til Le Mans.
Liðið mætir Frökkum í Le Mans á þriðjudagskvöldið en völlurinn, Stade Marie-Marvingt, er við kappakstursbrautina frægu sem er hvað þekktust fyrir sólarhrings kappaksturinn sem fer næst fram 11. - 15. júní næstkomandi.
Íslenska liðið tók létta upphitun og fór svo í taktík þegar það æfði í Le Mans í morgun en ekki var æft á keppnisvellinum að þessu sinni heldur æfingavelli í borginni.
Á morgun verður svo æft á keppnisvellinum en leikurinn fer fram nokkuð seint á staðartíma á þriðjudaginn eða 21:10 sem er 20:10 að íslenskum tíma.
Athugasemdir