mán 24. febrúar 2025 07:00
Hafliði Breiðfjörð
Le Mans
Rauðvín og ólífur - óvæntar lausnir á landsliðsæfingu
Icelandair
Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði veltir fyrir sér undirlaginu í Le Mans í gær.
Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði veltir fyrir sér undirlaginu í Le Mans í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari skoðar efnið.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari skoðar efnið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nú meina ég ekki Ólífur Ragnar Grímsson en Frakkar hafa leitað nýstárlegra lausna í að finna lausnir gegn notkun á gúmmíi á gervigrasvelli.

Þegar íslenska landsliðið æfði í Le Mans í Frakklandi í gær mátti sjá að það var eitthvað annað notað í gervigrasið en gúmmíkurlið sem við þekkjum á Íslandi.

Frakkar eru þekktir fyrir að vera meðal fremstu þjóða heims í rauðvínsframleiðslu og almenna reglan er að loka flöskunum með korktappa.

Á æfingasvæðinu sem Ísland fékk úthlutað var búið að mylja kork niður í kurl og aldrei að vita nema þarna sé tvíþætt lausn fyrir hendi, og endurvinnslulausn komin á korkinn úr rauðvínsflöskunum.

Þetta vakti forvitni leikmanna og þjálfara íslenska liðsins þegar þau mættu á völlinn í gær eins og meðfylgjandi myndir sína.

Einn þeirra Frakka sem þjónustar íslenska liðið sagði frá því að önnur lausn sem hefur verið prófuð hér í Le Mans sé að nota ólífur sem hafa verið kurlaðar niður. Það þykir hinsvegar ekkert spes að detta í það undirlag og leikmenn enda oft vel rispaðir eftir einvígi á þeim velli.

Evrópusambandið hefur tekið ákvörðun um að banna gúmmíkurlið á gervigrasvöllum frá árinu 2031. Það þýðir ekki að núverandi vellir verði bannaðir heldur verður bannað að framleiða, selja og drefa efninu. Því er um allan heim leitað lausna á hvað tekur við.
Athugasemdir
banner
banner