
Búist er við að 8-9 þúsund Frakkar verði áhorfendur á leik liðsins gegn Íslandi í Þjóðadeild kvenna annað kvöld en ekki er vitað um einasta Íslending sem hefur fengið miða á leikinn.
Leikurinn fer fram á Stade Marie Marvingt leikvanginum í Le Mans í Frakklandi. Heimaliðið þar er Le Mans FC sem leikur í næst efstu-deild karlamegin.
Völlurinn sem var klár árið 2011 er hinn glæsilegasti eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Hann tekur 25.064 áhorfendur í sæti. Það gerir hann að 18. stærsta leikvangi Frakka.
Á vellinum er svokallað hybrid gras eins og nú er verið að leggja á Laugardalsvöll.
Völlurinn hét alltaf MMArena og það var ekki fyrr en 27. júlí 2022 að nafni leikvangsins var breytt í Stade Marie Marvingt og varð þar með fyrsti leikvangurinn sem ber nafn konu. Konan sem um ræðir er var á sínum árum mikill frumkvöðull og íþróttastjarna. Hún fæddist 20. febrúar 1875 og í síðstu viku voru 150 ár frá fæðingu hennar.
Hún hafði gælunafnið 'brúður hættunnar'. Fyrst vakti hún athygli fyrir fjallafimi, hjólreiðar, skotfimi, sund og allskonar iþróttir, þó helst vetraríþróttir. Hún var fyrsta konan til að klára Tour de France en mátti ekki taka þátt því hún var kona svo það varð aldrei skráð opinberlega. Um hana væri hægt að skrifa endalaust, þátttöku hennar í heimsstyrjöldunum báðum sem dæmi en við hvetjum áhugasöm um að lesa um hana á WikiPedia eða finna góða heimildarmynd.
Athugasemdir