David Elleray, einn besti dómari sem dæmt hefur á Englandi, var hér á landi um helgina í tengslum við ráðstefnu dómara KSÍ. Tómas Þór Þórðarson hitti Elleray og tók viðtal við hann fyrir útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu.
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan
„Dómgæsla er mun meira í umræðunni en þegar ég var að dæma og það er meira sýnt frá mistökum en þá. Dómarar gera sömu mistökin en ég held að fólk sé betur að gera sér grein fyrir því hve erfitt starf dómarans er," segir Elleray en hann hætti að dæma 2003. Hann segir að staða dómgæslunnar á Englandi sé í góðum málum.
„Dómaramálin eru í góðri þróun þar. Við erum að fara í gegnum breytingaskeið því það hafa verið margir eldri dómarar sem hafa verið lengi að en nú eru að koma í gegn yngri menn. Það er gaman að sjá yngri dómara á borð við Michael Oliver, Craig Pawson, Anthony Taylor og Robert Madley standa sig vel í úrvalsdeildinni. Ég tel að staðan sé góð."
„Ég tel mig heppinn að hafa dæmt áður en úrvalsdeildin var stofnuð og á upphafsárum hennar. Á þessum árum var meiri gleði í boltanum en núna er pressan orðin svo rosaleg. Leikmenn eru sífellt að færa sig um set og starfstími þjálfara hjá hverju félagi verður alltaf styttri. Pressan í dag er orðin of mikil."
Dæmdi ekki á HM vegna kennslu
Elleray var valinn til að dæma á HM í Frakklandi 1998 en gaf það frá sér vegna vinnu sinnar. Hann starfaði sem kennari í einkaskóla.
„Ég þurfti að taka stóra ákvörðun fyrir HM 1998, átti ég að fara á HM eða halda áfram í starfi mínu sem kennari? Ég var síðasti dómarinn í ensku úrvalsdeildinni sem ekki var atvinnudómari. Núna þegar dómararnir eru orðnir atvinnumenn fá þeir miklu meiri tíma til æfinga og vinna forvinnu. Ég var kannski að dæma leik á Old Trafford á þriðjudagskvöldi og var kominn heim um nóttina en þurfti að kenna 3-4 tímum síðar," segir Elleray sem dæmdi einn eftirminnilegasta leik í enska boltanum, endurtekinn undanúrslitaleik milli Manchester United og Arsenal í FA-bikarnum 1999.
Sá leikur er reglulega rifjaður upp en þar skoraði Ryan Giggs stórkoslegt mark.
„Þetta var leikur sem hafði nákvæmlega allt. Það er hægt að taka þennan leik og segja að um þetta eigi fótboltinn að snúast. Það er sífellt verið að rifja þennan leik upp, fólk að tala um hvar það hafi verið og ég get sagt að ég hafi verið í miðjum leiknum. Þetta var eftirminnilegasti leikur sem ég dæmdi á Englandi. Ég þurfti að taka stórar ákvarðanir, bæði lið spiluðu frábæran fótbolta, bæði lið lögðu allt í sölurnar og markið hjá Ryan Giggs er sagt besta mark í sögu bikarsins."
„Fólk er sífellt að spyrja mig hvernig mér datt í hug að gerast dómari? Hvernig ég nennti að fá öll þessi leiðindi á mig. Að vera hluti í leik eins og þessum er mjög sérstakt."
Wright og Gascoigne erfiðir
Elleray er sá dómari sem oftast gaf Roy Keane, fyrrum fyrirliða Manchester United, af velli með rautt spjald.
„Ég sendi Roy fjórum sinnum af velli. Þegar ég hætti að dæma sendi hann mér áritaða treyju og bréf. Hann sagðist ánægður með að ég væri hættur því nú gæti hann farið áhyggjulaus út á völlinn að spila. Við áttum í góðu sambandi. Það góða við Roy er að ef hann gerði eitthvað slæmt þá var það augljóst fyrir framan alla. Hann var ekki að reyna að gera eitthvað lúmskt svo dómarinn sæi það ekki," segir Elleray.
Elleray nefnir tvo leikmenn sérstaklega þegar hann er spurður út í leikmenn sem voru erfiðir viðureignar fyrir dómara.
„Það voru nokkrir leikmenn sem voru erfiðir. Það var alltaf áskorun að dæma hjá Ian Wright því hann sýndi svo miklar tilfinningar. Paul Gascoigne var alltaf erfiður því hann er óútreiknanlegur karakter. Eina stundina er hann að koma með brandara og hlæja en þá næstu öskrandi niðrandi orð. Maður vissi ekki hvaða Paul Gascoigne maður var að fara að eiga við hverju sinni."
„Það voru margir sem var mjög þægilegt að dæma hjá. David Beckham var ótrúlega þægilegur, Gianfranco Zola er líklega sá leikmaður sem ég get komist næst því að kalla sannan herramann á velli. Ef maður tók rétta ákvörðun hrósaði hann manni en ef maður gerði eitthvað rangt sagði hann: Svona er fótboltinn. Hann er frábær manneskja."
Á að meðhöndla dómara eins og leikmenn
Elleray dæmdi með hljóðnema þegar Millwall og Arsenal mættust í Lundúnaslag á sínum tíma. Elleray er ekki ánægður með hvernig sjónvarpsfyrirtækið vann úr því efni.
„Þessi upptaka átti að vera hluti af heimildarmynd um hvernig komið er fram við dómara. Á sama tíma og ég var með hljóðnemann var dómari hjá yngri liðum líka með hljóðnema. Því miður var þetta svo þannig klippt að jákvæðu hlutirnir voru ekki sýndir og sett "píp" yfir á einhverjum stöðum svo þetta voru í raun nornaveiðar. Það var mjög leiðinlegt því að ef sjónvarpsfyrirtækið hefði höndlað þetta af meiri ábyrgð hefði þetta verið gert oftar," segir Elleray.
Hans skoðun á því þegar dómurum er refsað fyrir mistök er sú að það sé annað mál þegar einstaka mistök eru gerð en þegar dómarar eru einfaldlega að dæma illa nokkra leiki í röð.
„Það sem ég hef alltaf talað um þegar ég ræði við áhrifamenn í fótboltanum er að ef ég tek dæmi: Martin Atkinson gefur víti sem var rangur dómur. Þá spyrja menn hvort það eigi að refsa honum með því að setja hann í hvíld í nokkrar vikur? Wayne Rooney klúðrar víti í sama leik. Er það krafa að hann eigi að spila í varaliðinu næstu vikur sem refsingu?"
„Wayne Rooney mun eyða meiri tíma í að æfa vítaspyrnur. Mér finnst að það sama eigi að gera með Atkinson frekar en að láta hann dæma barnafótbolta í einhverjar vikur. Það á að skoða það af hverju hann tók þessa ákvörðun, túlkaði hann þetta rangt eða var hann kannski rangt staðsettur? Það á að reyna að koma í veg fyrir að hann geri sömu mistök í framtíðinni. Það á að vinna með dómara á svipaðan hátt og gert er með leikmenn," segir Elleray.
„Ef dómarinn er ekki að dæma vel þá þarf hann kannski tíma til að byggja upp frammistöðuna. Það er ekki auðvelt að gera það í sviðsljósi ensku úrvalsdeildarinnar og þá er sniðugt að láta hann dæma í lægri deildum. Rétt eins og leikmenn eru látnir fara í varaliðið og reynt að fá þá til að enduheimta sjálfstraustið. Það er munur á einstaka mistökum og heildarframmistöðu."
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir