Mateta kostar 40 milljónir punda - Liverpool og Man Utd vilaj Robinson - Douglas Luiz aftur í ensku úrvalsdeildina?
   fös 16. maí 2014 09:00
Elvar Geir Magnússon
Tryggvi skoðar umferðina: KR-ingar verða að hætta að væla
Tryggvi er sérfræðingur Fótbolta.net.
Tryggvi er sérfræðingur Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandor hefur verið góður en það hefur engu skilað.
Sandor hefur verið góður en það hefur engu skilað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Vilhjálmsson þarf að fara að skila inn stigum í Draumaliðsdeildinni.
Árni Vilhjálmsson þarf að fara að skila inn stigum í Draumaliðsdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Þórðarson reynir að sækja þrjú stig.
Ólafur Þórðarson reynir að sækja þrjú stig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson er einn af sérfræðingum Fótbolta.net um Pepsi-deild karla. Fjórða umferðin verður leikin á sunnudag og mánudag og fengum við Tryggva til að skoða komandi leiki.

Tryggvi er markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi en hann hefur skorað 131 mark með ÍBV, FH og KR. Hér að neðan má sjá álit Tryggva.

Ert þú með spurningu fyrir Tryggva? Sendu tölvupóst á [email protected] merkt "Spurning á Tryggva".

Sunnudagur 17:00 FH - ÍBV (Kaplakrikavöllur)
FH-ingar hafa farið vel af stað og virka stöðugir. Þeir verjast vel, eru skipulagðir og hafa beinskeitta og eitraða menn framarlega á vellinum. Hér er um skyldusigur að ræða fyrir þá og ekkert annað.

Það hefur verið erfitt hjá Sigga Ragga og hans mönnum. Það vantar allt bit í sóknarleikinn og of margir leikmenn sem klappa boltanum of mikið með þeim afleiðingum að sóknirnar verða hægar. Þeir voru óheppnir gegn Stjörnunni þegar þeir voru einmitt meira „direct" í sínum leik en voru svo arfaslakir gegn Fylki. Vörnin sem vanalega hefur verið traust er farin að hiksta. Eyjamenn hafa lofað að bæta upp fyrir Fylkisleik og mæta væntanlega brjálaðir til leiks. Að mæta sterku liði FH í Krikanum verður þeim þó erfitt.

Sunnudagur 17:00 Þór - Stjarnan (Þórsvöllur)
Þórsarar eru án stiga og verða að taka stigin sín á heimavelli. Sakna augljóslega Chuck mikið og mikilvægt að hann spili. Aðrir þurfa samt að stíga upp því það gerir þetta enginn einn. Sandor markvörður búinn að vera bestur en það hefur samt engu skilað sem er áhyggjuefni fyrir þá. Verða bara að taka þrjú stig hér til að byrja mótið.

Stjörnuliðið í raun búið að spila „la la" þessar þrjár umferðir en samt með sjö stig sem verður að teljast gott. Sóknarleikurinn er ekki upp á marga fiska sem er e-ð sem maður hefur ekki sagt um Stjörnuliðið í mörg ár. Voru heppnir í Eyjum og hinir leikirnir tveir hafa ekki verið mikið fyrir augað. Nú þurfa þeir að stimpla sig inn sem verður þó erfitt fyrir norðan þar sem Þórsarar ætla sér að ná í sín fyrstu stig.

Sunnudagur 19:15 Breiðablik - Fjölnir (Kópavogsvöllur)
Leikur sem Blikar einfaldlega þurfa að vinna. Gulli þarf að loka búrinu og svo verður sóknarleikurinn auðvitað að vera miklu betri. Blikar hafa verið afskaplega rólegir fram á við í byrjun móts og skapað mjög lítið. Þetta er tækifæri fyrir Árna Vill að stimpla sig inn og fara að gefa þessum fjölmörgu sem völdu hann í draumaliðið einhver stig!

Fjölnismenn eru taplausir og hafa komið á óvart. Leikgleðin er í fyrirrúmi og liðið mjög heilsteypt. Þeir mæta í Kópavoginn fullir sjálfstrausts og hitta á Blika sem eru í erfiðum málum. Pressan í þessum leik er mun meiri á Blikaliðinu og því geta Fjölnismenn mætt með bros á vör, kassann úti og klárir í fjörið.

Sunnudagur 19:15 Keflavík - KR (Keflavíkurvöllur)
Allt hefur í raun gengið upp hjá Keflavík. Höddi skorar tvö í fyrsta leik, Mattarinn tekur hlaup sem vinstri bakvörður sem er í raun ekki eftir bókinni og klárar Val og svo kemur hinn ungi Elías Már inn fyrir Hödda og gerir tvö. Auðvitað gaman þegar lið setja sér markmið og ná þeim fyrr en áætlað var því þá minnkar pressan og gleðin tekur við völd. Koma með bullandi sjálfstraust í leikinn.

KR-ingar hafa vælt yfir sól, vælt yfir því að spila heimaleikina ekki heima heldur á gervigrasi (sem ég reyndar skil) og vælt yfir dómgæslu sem var einfaldlega góð. Kominn tími á að hætta að væla og spila fótbolta. Verða einfaldlega að vinna þennan leik því annars byrja menn að pirrast verulega í vesturbænum.

Mánudagur 19:15 Víkingur - Fylkir (Gervigrasið Laugardal)
Víkingar unnu Fram í 2. umferð og eru með fjögur stig eftir þrjár umferðir sem verður að teljast gott hjá nýliðum. Mæta liði sem er fyrir neðan þá í töflunni og sjá væntanlega möguleika á að taka þrjú stig. Það yrði mikilvægt. Óli Þórðar að mæta gömlum félögum og því ljóst að hann er sjúkur í sigur í þessum leik.

Spurning hvernig sigurinn í Eyjum fer í mannskapinn. Fylkismenn voru búnir að vera slakir fyrir þann leik en ættu að vera komnir með meira sjálfstraust. Útlendingarnir þrír virkuðu flottir í Eyjum og svo er sterkt að Andrés Már er kominn til baka úr meiðslum. Þetta er sex stiga leikur fyrir þá eins og þessi í Eyjum.

Mánudagur 20:00 Valur - Fram (Vodafone-völlurinn)
Valsmenn eru líklega ekki ánægðir með byrjunina á mótinu og verða að vinna þennan leik. Hafa enn ekki haldið hreinu þrátt fyrir að vera með öfluga varnarmenn. Þurfa á því að halda að sóknarmenn liðsins hafa ekki verið líklegir í að raða inn mörkunum. Þeir hafa nú fengið Patrick Pedersen til baka og hann ætti að hressa upp á sóknarleikinn. Breiði hópurinn breikkar enn.

Komið að alvöru leik hjá Fram. Hafa hingað til mætt liðum sem spáð var í neðri helminginn. Meðalaldur Fram hækkar með tilkomu Tryggva og Bjögga Takefusa og það hjálpar til auk þess sem Jói Kalli er kominn úr meiðslum. Þessi leikir er gott próf fyrir liðið. Arnþór Ari Atlason hefur heillað mig í upphafi móts og heldur því vonandi áfram.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner