Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mið 31. júlí 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Best í 12. umferð: Leyfi Olgu að eiga metið
Margrét Lára Viðarsdóttir (Valur)
Margrét Lára Viðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrívegis í 5-1 sigri Vals á Stjörnunni í Garðabænum í 12. umferð Pepsi Max-deildar kvenna.

Þar með er Margrét Lára komin með 10 mörk í sumar og spennan um markadrottningstitilinn harðnar og harðnar.

Fyrsta mark Margrétar í leiknum var sögulegt því það var hennar 200. mark í efstu deild á Íslandi. Hún varð önnur í sögunni til að skora 200 mörk í efstu deild kvenna með því marki. Hún bætti svo við tveimur í viðbót og er hún því komin með 202 mörk í efstu deild á Íslandi og hvergi nærri hætt.

„Ég vissi að ég væri komin í 199 mörk og fannst ómögulegt að staldra of lengi í því. Það er gaman að ná því og heiður að vera komin í þann hóp kvenna sem er þar," sagði Margrét Lára í viðtali við Fótbolta.net eftir leik.

Markadrottningin, Olga Færseth á metið í markaskorun í efstu deild en Olga skoraði hvorki fleiri né færri en 269 mörk í efstu deild. Margrét Lára segir að það verði erfitt að ná því meti.

„Ég held að Olga verði bara í sérflokki þar. Ég leyfi henni að eiga það met enda frábær leikmaður." Margrét Lára er núna komin með 10 mörk í deildinni í sumar. Stefnir hún á að verða markahæst?

„Nei ekki beint. Ég er bara glöð þegar við vinnum og það skiptir mig mestu máli. Við erum núna þrjár í Valsliðinu komnar yfir 10 mörk og mér finnst það sýna gríðarlega liðsheild," sagði Margrét Lára en bæði Hlín Eiríksdóttir og Elín Metta Jensen liðsfélagar hennar hafa skorað 11 mörk hvor.

Í viðtali við Vísi eftir leikinn í gær var Pétur Pétursson þjálfari Vals og fyrrum markahrókur spurður út í afrek Margrétar og hvort Margrét Lára væri betri framherji en hann sjálfur á sínum tíma.

„Ég skoraði ekki nema 67 mörk á Íslandi þannig já hún er miklu betri framherji," sagði Pétur sem lék hér á landi með KR, ÍA og Tindastól auk þess sem hann lék sem atvinnumaður á Spáni og í Hollandi.

Margrét Lára Viðarsdóttir hefur fimm sinnum verið markahæsti leikmaður efstu deildar á Íslandi en það gerði hún fimm tímabil í röð frá árunum 2004 til 2008. Olga Færseth hefur sex sinnum verið markahæsti leikmaður efstu deildar.

Markahæstu leikmenn í Pepsi Max:
Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik) - 11 mörk
Agla María Albertsdóttir (Breiðablik) - 11 mörk
Hlín Eiríksdóttir (Valur) - 11 mörk
Elín Metta Jensen (Valur) - 11 mörk
Sandra Mayor (Þór/KA) - 10 mörk
Margrét Lára Viðarsdóttir (Valur) - 10 mörk
Sophie Groff (Keflavík) - 10 mörk



Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Best í 11. umferð - Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir (Stjarnan)
Best í 10. umferð - Hólmfríður Magnúsdóttir (Selfoss)
Best í 9. umferð - Sandra Mayor (Þór/KA)
Best í 7. umferð - Natasha Anasi (Keflavík)
Best í 6. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 5. umferð - Cloe Lacasse (ÍBV)
Best í 4. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 3. umferð - Birta Guðlaugsdóttir (Stjarnan)
Best í 2. umferð - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Best í 1. umferð - Hlín Eiríksdóttir (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner