Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fim 03. nóvember 2022 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnór Smára: Mjög svekkjandi að fá þessi orð en fá svo lítið sem ekkert að spila
Arnór skoraði fimm mörk í sumar, hér er hann á leiðinni á vítapunktinn.
Arnór skoraði fimm mörk í sumar, hér er hann á leiðinni á vítapunktinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur verið gaman að koma heim og spila í íslensku deildinni
Það hefur verið gaman að koma heim og spila í íslensku deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var svekkjandi eftir þessa góðu byrjun
Það var svekkjandi eftir þessa góðu byrjun
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
 Ég var á tímapunkti markahæsti maður liðsins og kosinn í úrvalslið fyrsta þriðjungs
Ég var á tímapunkti markahæsti maður liðsins og kosinn í úrvalslið fyrsta þriðjungs
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Arnór Smárason var á þriðjudag tilkynntur sem nýr leikmaður ÍA. Skagamaðurinn lék með Val síðustu tvö tímabil en hafði þar á undan verið á mála hjá liðum erlendis síðan 2004.

Arnór um skiptin í ÍA:
„Verið draumur alveg síðan ég fór út 15 ára gamall"

Valur olli vonbrigðum á tímabilinu, liðið endaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar og vann liðið einungis einn af síðustu tíu leikjum sínum. Arnór kom við sögu í tuttugu leikjum í sumar, skoraði fimm mörk og lagði upp þrjú. Fjórum sinnum var hann ónotaður varamaður, missti af einum leik vegna meiðsla, einum leik vegna leikbanns og var einu sinni fjarri góðu gamni vegna veikinda.

Byrjaði vel en seinni hlutinn vonbrigði
Arnór ræddi við Fótbolta.net í vikunni og fór yfir tímabilið hjá Val.

„Við byrjuðum tímabilið vel, tökum þrettán stig í fyrstu fimm umferðunum. Persónulega þá byrjaði tímabilið vel, ég var að skora mörk og leggja upp og ég komst inn í stórt hlutverk í Valsliðinu. Mér leið vel, var heill síðasta vetur og náði að æfa vel. Ég var á tímapunkti markahæsti maður liðsins og kosinn í úrvalslið fyrsta þriðjungs."

„Svo koma þjálfaraskipti, nýr maður tekur við og ég fæ varla séns eftir það. Það er frekar svekkjandi að hafa ekki fengið að halda áfram þessari góðu byrjun á tímabilinu. Spiltíminn seinni hluta tímabilsins voru mikil vonbrigði og spilamennska liðsins seinni hluta tímabilsins mikil vonbrigði fyrir klúbb eins og Val - það sjá það allir."


Átti að fá fullt af leikjum
Arnór byrjaði síðustu fimm leikina undir stjórn Heimis Guðjónssonar. Eftir að Ólafur Jóhannesson tók við liðinu byrjaði Arnór einungis tvo leiki. Voru einhver samtöl milli Arnórs og Ólafs varðandi spiltíma?

„Þegar Skaginn sýndi mér áhuga í sumar, Óli Jó var tekinn við og ég var á bekknum í fyrsta leik. Þá eigum við samtal þar sem ég spyr hann út í plönin varðandi liðið. Ég lét hann vita að ég væri með lið sem ég gæti farið í og spyr hann hreint út hvort að hann sjái mig fyrir sér í liðinu. Hann segir að það sé ekki séns að ég sé að fara í annað lið núna, hann vildi halda mér og segir að ég sé einn af betri fótboltamönnunum í liðinu og muni fá fullt af leikjum."

„Það var bara nóg fyrir mig, ég þurfti ekki að fá að heyra meira. Frábært að heyra það og var bara gíraður í verkefnið. En það var ekki alveg staðið við þessi orð. Þjálfarinn ræður hver spilar og allt það en persónulega mjög svekkjandi að fá þessi orð en fá svo lítið sem engan spiltíma það sem eftir var tímabils. Það var svekkjandi eftir þessa góðu byrjun."


Ræddiru aftur við Óla seinna um sumarið?

„Við töluðumst við svona mánuði síðar, þá voru liðnir nokkri leikir. Það var eftir leik þar sem ég kom ekki inn á. Þá fékk ég sömu ræðu. Á endanum er það þannig að þjálfarinn ræður, hann velur liðið og ef hann telur það besta liðið þá er það bara þannig. En miðað við stigasöfnunina þá er þetta svekkjandi."

Kom Arnóri í opna skjöldu
Rætt var við Óla Jó um Arnór eftir leikinn gegn KA í september. Arnór var ónotaður varamaður í þeim leik. Nafn Arnórs hafði verið bendlað við mál sem tengdist gagnrýni frá leikmanni Vals á undirbúning liðsins fyrir leikinn gegn Leikni í umferðinni á undan.

Spjótin beindust að Arnóri, að hann væri ónefndur heimildarmaður Ríkharðs Guðnasonar, þáttarstjórnanda Þungavigtarinnar og hefði sagt honum frá takmörkuðum undirbúningi liðsins fyrir leikinn gegn Leikni.

Hvernig upplifði Arnór þetta allt saman?

„Við skulum hafa það á hreinu að ég er algjörlega saklaus í þessu máli. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu að vera bendlaður við það. Bróðir minn er í hlaðvarpsgeiranum en við höfum alltaf haft mjög professional samtal okkar á milli varðandi þessa hluti. Það var talað um að einhver hefði haft samband við Rikka G. Ég hef aldrei talað við manninn á ævinni."

Mikið eðalfólk sem vinnur í kringum félagið
„Það hefur verið gaman að koma heim og spila í íslensku deildinni. Ég held að ég hafi sýnt það fyrri hluta móts hvað ég hef fram að færa sem leikmaður. Ég vona að þeir kraftar eigi eftir að nýtast Skaganum í baráttunni á næsta ári."

„Ég er þakklátur Val fyrir þessi tvö ár, ég hef átt í góðum samskiptum við liðsfélagana og allt fólkið sem vinnur í kringum félagið. Þetta er mikið eðalfólk. Ég á pottþétt eftir að kíkja í kaffi á Hlíðarenda og jafnvel einn öl í Fjósinu í framtíðinni. Ég held að það sé engin spurning,"
sagði Arnór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner