Erik Hamrén, fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins, segist brjálaður yfir frásögn úr bók sænska blaðamannsins Olof Lundh, en hún ber heitið Landsliðið samkvæmt Lundh.
Lundh, sem stofnaði sænska miðilinn Fotbollskanalen, er margverðlaunaður íþróttafréttamaður, en hefur þótt umdeildur og virðist hafa horn í síðu Zlatan Ibrahimovic.
Hann gaf út bók fyrir tveimur árum sem nefnist Landsliðið samkvæmt Lundh, en þar fer hann meðal annars yfir menninguna í búningsklefa sænska karlalandsliðsins.
Þar fékk hann marga fyrrum landsliðsmenn til að ræða um ýmis atvik sem tengdust Zlatan. Leikmennirnir komu ekki undir nafni, en sögðu þar frá því hvernig Zlatan átti að hafa eyðilagt Rasmus Elm, sem varð til þess að Elm spilaði aldrei aftur fyrir landsliðið.
Erik Hamrén stýrði sænska landsliðinu í sjö ár og var í klefanum þegar Zlatan hraunaði yfir Elm. Þegar Elm reyndi að svara fyrir sig þá kom Hamrén á milli og sagði honum að hætta, en þjálfarinn á að hafa misst virðingu margra leikmanna eftir það atvik.
Hamrén segist brjálaður yfir þessari frásögn og segir þetta óréttlæti í garð Zlatans.
„Ég var brjálaður yfir þessu. Mér fannst þetta þvílíkt óréttlæti í garð Zlatans. Það var ekki svona sem ég upplifði þetta. Menn geta haft mismunandi upplifanir en aldrei á mínum ferli upplifði ég Zlatan á þennan hátt,“ sagði Hamrén við Göteborgs Posten.
„Ég vil alls ekki dvelja á þessu eða tjá mig um þetta til þess að skapa fyrirsagnir. Þetta er grafið mál. Það er ekki þess virði að tala um þetta, því þetta er að mér finnst algjört brjálæði,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir