Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknis, var ánægður eftir leik sinna manna í kvöld en nýliðarnir sigruðu þá Íslandsmeistara Stjörnunnar 1-0.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 0 Stjarnan
„Alltaf jafn yndisleg,“ svaraði Freyr hvernig tilfinning það væri að vinna fótboltaleik en Leiknir hafði ekki unnið síðan í maí. „Við ætlum bara að njóta þess að hafa þessa tilfinningu í systeminu í kvöld og alveg þangað til á æfingu á morgun.“ Freyr sagði þennan leik ekki hafa verið lagðan upp öðruvísi en leikina á undan. „Eina sem við breyttum var að við skiptum um varnarafbrigði í miðjum leik í báðum hálfleikum.“
Elvar Páll Sigurðsson átti sinn besta leik síðan hann gekk til liðs við Leikni fyrir tímabilið. „Hann var frábær í kvöld. Og frábær upp á Skaga. Hann lenti í smá öldudal í byrjun móts og hefur verið að vinna sig faglega upp úr því og ég er mjög ánægður með hann.“
Halldór Kristinn Halldórsson hefur verið einhver besti leikmaður Leiknis í sumar og skoraði sigurmarkið í kvöld. „Ég er gríðarlega ánægður með Halldór Kristinn. Þetta er ástæðan fyrir því að við fengum hann, við þurftum mann með reynslu. Síðast þegar ég þjálfaði Halldór Kristinn skoraði hann fullt af mörkum á undirbúningstímabili og við ákváðum að flytja þetta inn í tímabilið núna og hann hefur bara gert það.“
Sem fyrr segir hafði Leiknir ekki unnið leik í langan tíma og var Freyr gríðarlega ánægður í leikslok. „Konan mín á skilið að fá glaðan Freysa heim í kvöld. Auðvitað var þungu fargi af okkur létt en það er ekkert stress.“
Athugasemdir