Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 06. nóvember 2022 20:41
Elvar Geir Magnússon
Arnar Viðars: Getur ekki keypt það sem Aron Einar kemur með inn í hópinn
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er rosalega stoltur af liðinu í dag," sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari eftir 1-0 sigur Íslands í vináttulandsleiknum gegn Sádi-Arabíu.

„Við erum að spila við lið sem er að fara á HM og erum að spila á mörgum leikmönnum sem hafa ekki mikla reynslu af því að spila landsleiki. Leikurinn er spilaður í 35-36 stiga hita og það er hluti af landsliðsumhverfinu að fara í aðra heimsálfu og spila við allt aðrar aðstæður en við erum vanir."

Lestu um leikinn: Sádi-Arabía 1 -  0 Ísland

Arnar segir að þessir vináttuleikir gegn Sádum og Kóreumönnum, sem spilaðir eru utan landsleikjaglugga, hjálpi til við að auka breiddina í landsliðinu.

„Undanfarna mánuði hef ég talað um að við séum að þróa nýtt lið og á næstu fimm árum gætu leikmenn úr þessu liði spilað ansi marga landsleiki. Til að þeir geti sýnt sig og við getum metið hversu góðir þeir eru þá þurfa þeir að fá leiki."

Aron Einar lék sinn 100. landsleik í dag. Hversu mikilvægur er hann fyrir liðið?

„Hann er bara stórkostlegur. Þú getur sem þjálfari ekki keypt þessa reynslu sem hann kemur með inn í hópinn. Hann miðlar af sinni 100 leikja reynslu til stráka sem eru að taka sín fyrstu skref. Það segir mikið að hann hafi viljað koma hingað í þennan leik og hjálpa þessum strákum. Mikið hrós á hann."

Ísland heldur nú til Suður-Kóreu og spilar vináttulandsleik við heimamenn á föstudaginn.



Athugasemdir
banner
banner