Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 06. nóvember 2022 20:50
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Nökkvi allt í öllu í Íslendingaslag - Willum bjargaði stigi í uppbótartíma
Nökkvi Þeyr
Nökkvi Þeyr
Mynd: Beerschot

Stefán Teitur Þórðarson var á skotskónum þegar Silkeborg vann vann Álaborg í efstu deildinni í Danmörku.


Álaborg komst yfir snemma leiks en Silkeborg vann að lokum 2-1. Stefán jafnaði metin þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson byrjuðu báðir á bekknum hjá FCK sem tók á móti Lyngby, Sævar Atli Magnússon var í byrjunarliði Lyngby.

Ungstirnið Roony Bardghji sá til þess að FCK fór með 1-0 forystu í leikhléið. Eftir klukkutíma leik var hann tekinn af velli og Hákon kom inn á í hans stað. Rúmum tíu mínútum síðar tvöfaldaði FCK forystuna en þar var Hákon að verki. FCK skoraði eitt mark til viðbótar áður en flautað var til loka leiksins, 3-0 lokatölur.

FCK og Silkeborg eru jöfn í 3. og 4. sæti deildarinnar með 24 stig. Lyngby er á botninum með aðeins fimm stig. Mikael Anderson var í byrjunarliði AGF sem gerði 1-1 jafntefli gegn Viborg, liðið er í 7. sæti með 22 stig, stigi á eftir OB og Randers.

Willum maður leiksins - Nökkvi skoraði og lagði upp

Willum Þór Willumsson var maður leiksins í dramatísku jafntefli GA Eagles gegn Twente í hollensku deildinni. Twente komst yfir en Eagles fékk vítaspyrnu í uppbótartíma, WIllum steig á punktinn og skoraði og tryggði sínu liði stig. 1-1 lokatölur. GA Eagles er í 11. sæti með 14 stig eftir 13 leiki.

Nökkvi Þeyr Þórisson var allt í öllu í 3-1 sigri Beerschot gegn Lommel í Íslendingaslag í næst efstu deild í Belgíu. Staðan var 1-1 í hálfleik en Nökkvi lagði upp annað markið og gulltryggði sigurinn með því að skora það þriðja. Kolbeinn Þórðarson kom inn á sem varamaður hjá Lommel þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Beerschot er með 20 stig eftir 12 umferðir í 5. sæti en Lommel í 7. sæti með 15 stig.


Athugasemdir
banner
banner