
FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur bannað danska landsliðinu að klæðast ákveðnum æfingatreyju á HM í Katar í sumar.
DR í Danmörku greinir frá því að danska landsliðið hafi ætlað sér að klæðast sérstökum æfingatreyjum á mótinum með skilaboðunum: „Mannréttindi fyrir alla (e. human rights for all)," en FIFA hafi komið í veg fyrir það.
Mikið hefur verið fjallað um mannréttindabrot í Katar og þann mikla fjölda verkamanna sem hafa látið lífið við að byggja leikvanga og önnur mannvirki fyrir mótið.
Í Katar er þá samband einstaklinga af sama kyni bannað og einnig er fræðsla um samkynhneigð skilgreind sem glæpur.
FIFA skrifaði nýverið bréf allra 32 þátttökuþjóða HM í Katar þar sem þeim var sagt að „einbeita sér að fótboltanum“ núna þegar tæpar tvær vikur eru í opnunarleik mótsins.
Talsmaður danska fótboltasambandsins segir að skilaboðin frá FIFA er varðar æfingatreyjur Danmerkur hafi verið á þá leið að ekki eigi að sjást pólitísk skilaboð á keppnis- eða æfingafatnaði. „Okkur þykir þetta leitt," segir Jakob Jensen hjá danska fótboltasambandinu.
FIFA og UEFA hafa farið í herferðir gegn rasisma en almenn mannréttindi eru of pólitísk fyrir alþjóðaknattspyrnusambandið.
Athugasemdir