Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 11. nóvember 2022 17:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íhugaði Þór/KA eftir erfiðan viðskilnað - Tók svo einn fund með Pétri
Í leik með Val.
Í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist Edvardsdóttir og Pétur Pétursson.
Mist Edvardsdóttir og Pétur Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslands- og bikarmeistari með Val í sumar.
Íslands- og bikarmeistari með Val í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, einn sigursælasti leikmaður í sögu íslenska boltans, var gestur í hlaðvarpi hér á síðunni í byrjun þessarar viku.

Þar fór hún yfir feril sinn sem hófst í Breiðabliki og endaði í Val. Lengst af spilaði hún þó í Stjörnunni og er hún með stórt Stjörnuhjarta eftir tíma sinn í Garðabænum.

Adda yfirgaf Stjörnuna 2018. „Tilfinningalega var þetta erfitt. Ég tók ekkert endilega ákvörðunina um að fara. Stjórnin í raun gerði það. Þau buðu mér samning sem var í raun ekkert samningur. Það voru breytingar hjá þeim og þeir tóku þessa ákvörðun, menn í stjórn," sagði Adda.

„Á þessu tímabili fara að ég held níu leikmenn úr félaginu. Viðskilnaðurinn var erfiður og mér finnst erfitt að horfa til baka. Ég get sagt það núna þegar ég sé Kjartan Henry ganga í gegnum svona tilfinningalegan hluta með KR að ég er fegin að hafa ekki farið í viðtöl beint eftir viðskilnað minn við Stjörnuna. Það eru svo margar tilfinningar þegar þú tengist félaginu svona mikið. Félagið hefur líka gert svo mikið fyrir mig."

„Stjarnan er stærra en 3-4 stjórnarformenn. Ég ákvað að halda áfram að þykja vænt um Stjörnuna og ekki merkja félagið út frá mönnum sem ráða."

Hún endaði á því að fara í Val, en það var áhugi á henni annars staðar líka. Hún íhugaði að fara norður í Þór/KA. Maðurinn hennar, Almarr Ormarsson, lék með KA á þessum tíma.

„Ég er ofboðslega ánægð að hafa farið í Val á þessum tímapunkti. Ég og Almarr vorum bæði samningslaus á þessum tíma. Hann fer norður og það hefði verið ævintýri að fara með fjölskylduna norður. Ég var í viðræðum við Þór/KA. Donni var að þjálfa þær á þeim tíma og það voru tveir leikmenn úr Stjörnunni - Lára Kristín og Þórdís Hrönn - sem fóru á sama tíma norður. Það var pæling að prófa það, að vera sem fjölskylda fyrir norðan," sagði Adda.

„En eftir fyrsta fund með Pétri (Péturssyni, þjálfara Vals) þá fann ég að Valur var rétti staðurinn fyrir mig. Eins sárt og það var að fara frá Stjörnunni þá var það líka gæfuspor fyrir mig að fá smá auka líf á ferlinum. Ég finn nýja hvatningu; nýir leikmenn, risastórt félag, að vinna með Pétri."

Pétur er goðsögn í íslenskum fótbolta. Hvernig er hann sem þjálfari? „Hann er einn af þeim betri sem ég hef unnið með. Hann er frábær þjálfari og þú sérð það á árangrinum hans. Það eru margir leikmenn hjá okkur sem vita ekki hver Pétur Péturs er eða hefur afrekað á sínum ferli. Stundum hefði ég viljað vera senter hjá honum, að fá leiðsögnina þannig hjá Pétri. Það er ómetanlegt. Hann er skipulagður og góður þjálfari."

„Það sterkasta sem ég fann þegar ég spilaði fyrir Pétur var að þú finnur að þér langar að vinna fyrir þjálfarann þinn. Þú vilt ekki bregðast honum. Hann hefur þau áhrif á leikmenn og það er góður eiginleiki að hafa sem þjálfari."

Adda hefur talað um það hvað henni þótti vænt um tímann með Val og titlana sem hún vann þar. Hún er núna að fara í þjálfarahlutverk hjá Val og mun þar starfa með Pétri. Hún er spennt fyrir því að fara í þjálfun.

Hægt er að hlusta á allt spjallið í spilaranum hér að neðan en þar fer Adda um víðan völl, ræðir meðal annars um það hvernig er að koma til baka eftir barneign en hún gerði það tvisvar á sínum ferli.

Sjá einnig:
„Þeir hafi ekki sett allan peninginn á það að ég yrði einhver leikmaður"
Adda fer yfir glæstan feril - Einn sigursælasti leikmaður sögunnar
Athugasemdir
banner
banner