Andreas Pereira leikmaður Fulham mætir sínum gömlu félögum þegar Lundúnarliðið fær Manchester United í heimsókn á sunnudaginn.
Hann náði ekki að sanna sig hjá United en hann lék 75 leiki og skoraði aðeins fjögur mörk. Hann hefur hins vegar byrjað vel með Fulham þar sem hann er með tvö mörk og þrjár stoðsendingar.
„Ég veit ekki hvað er öðruvísi hjá honum hér en þegar hann var hjá Manchester United. Við erum ánægð með að hafa hann hér. Hann stendur sig vel og hefur aðlagast hópnum, hugmyndum okkar og leikstíl," sagði Marco Silva stjóri Fulham um Pereira.
„Ég býst við meiru frá honum því ég veit að hann er með hæfileikana til að gera meira. Með meiri tíma með mér mun hann halda áfram að bæta sig. það er klárt og við munum sjá meira frá honum."
Athugasemdir