Kvaratskhelia orðaður við Man Utd og Liverpool - Moyes fyrsti kostur Everton - Man Utd blandar sér í baráttuna um Mbeumo
   mán 16. janúar 2017 21:07
Magnús Már Einarsson
Gary Martin: Þjálfarar KR höfðu eitthvað á móti mér
Gary Martin með treyju Lokeren.
Gary Martin með treyju Lokeren.
Mynd: Lokeren
Gary skorar í leik með Víkingi.
Gary skorar í leik með Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gary í leik með KR sumarið 2015.
Gary í leik með KR sumarið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta eru frábær skipti. Þetta er frábær deild með gæða liðum og samkeppnin er mjög hörð. Ég hlakka til að fá spila þarna. Þetta er stærsta deild sem ég hef spilað í og ég get ekki beðið eftir að byrja," sagði Gary Martin við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir samning hjá Lokeren í Belgíu.

Gary var á bekknum hjá KR sumarið 2015 en eftir að hafa spilað með Víkingi R. og Lilleström í fyrra þá er hann kominn í belgísku deildina.

„Þetta hefur verið rússibanareið og ég skulda konunni minni og fjölskyldu mikið. Þau hafa verið frábær og ég gæti ekki verið þar sem ég er í dag án þeirra. Þau studdu alltaf við bakið á mig og þegar hlutirnir voru hræðilegir hjá KR árið 2015 þá hjálpuðu þau mér að sjá jákvæðu hliðarnar og létu mig átta mig á því að það eru mikilvægari hlutir í lífinu en fótbolti," sagði Gary.

„Ólafur Garðarsson, umboðsmaður minn, sem ég byrjaði ekki að vinna með fyrr en 2015, var einnig frábær fyrir mig þegar hlutirnir gengu ekki vel. Hann leitaði alltaf eftir lausnum og ég fékk lausnina hjá Víkingi. Það var frábært að fara í Víking. Þetta var nýtt upphaf og þetta félag spilaði stórt hlutverk í að ég komst að erlendis."

„Félagið stóð við öll loforð um að leyfa mér að fara út og ég skulda þessu félagi mikið. Þeir leyfðu mér að fara til Lilleström á miðju tímabili og gáfu mér tækifæri á að spila í Noregi. Það hlýtur að hafa verið erfitt því að félagið ætlaði í Evrópukeppni og við vorum ennþá í séns en þeir stóðu við sín orð frá því þegar ég skrifaði undir og ég kann mikið að meta það."


„Þetta var persónulegt hjá KR"
Gary varð markakóngur í Pepsi-deildinni 2014 en ári síðar var hann kominn á bekkinn eftir að Bjarni Guðjónsson tók við þjálfun KR með Guðmund Benediktsson og Henrik Bödker sér til aðstoðar. Margt hefur breyst hjá Gary á einu og hálfu ári síðan þá en hann segist aldrei hafa misst trúna á eigin hæfileikum.

„Ég gafst aldrei upp. Í huga mínum vissi ég hvert ég var að fara og vissi að ég gæti spilað í betri deild. Fótboltinn breytist fljótt og ég vissi að um leið og ég myndi komast frá KR þá gæti ég byrjað að einbeita mér að því að komast út. "

„Ég var ekki á bekknum af því að ég var ekki nógu góður, allir vita það. Þetta var persónulegt. Það er einfalt að þjálfararnir þrír sem stjórnuðu hjá KR kunnu ekki vel við mig eða höfðu eitthvað á móti mér."

„Ég spilaði með Bjarna og ég ber mikla virðingu fyrir honum sem leikmanni. Hann var besti leikmaður sem ég spilaði með á Íslandi og það voru aldrei vandræði á milli okkar þegar við spiluðum saman. Sem þjálfari þá er ekki hægt að vinna með honum þegar hann sagði fimm dögum fyrir leik að þú myndir byrja, en síðan þegar kom að leiknum þá varstu á bekknum. Það er ekki hægt að spila fyrir þannig þjálfara."


Stökkið er mikið úr Pepsi-deildinni yfir í belgísku deildina en hún er hærra skrifuð en deildirnar á Norðurlöndunum. Gary áttar sig á muninum.

„Það á eftir að taka tíma að aðlagast, ég á eftir að flytja með konunni minni og köttunum. Ég býst ekki við að labba beint inn í liðið. Ég hef sagt oft áður að ég er raunsær. Þetta verður mikil vinna og þolinmæði en ég ætla að nýta tækifærið þegar ég fæ það. Ég hlakka til að spila með betri leikmönnum sem sjá hlutina á fljótari hátt og hugsa á fljótari hátt. Ég er vongóður um að ég geti staðið mig vel hér í Belgíu."

Vinnur í að fá íslenskan ríkisborgararétt
Hjá Lokeren er Rúnar Kristinsson þjálfari. Rúnar fékk Gary til KR á sínum tíma og til Lilleström síðastliðið sumar. Hann er nú að fara að þjálfa Englendinginn hjá þriðja félaginu. Gary er spenntur fyrir því að leika undir stjórn Rúnars.

„Það er ekkert leyndarmál. Við höfum góðan skilning og vinnum vel saman. Við sýndum það á Íslandi og þegar ég fór til Noregs. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Ég ber virðingu fyrir því sem hann afrekaði sem leikmaður og hann frábær þjálfari einn á einn. Hann er með fótboltaheila og þú getur spurt hvaða leikmann sem er sem hann hefur þjálfað. Allir segja það sama. Þetta er þjálfari sem þú nýtur þess að spila fyrir."

Eins og Fótbolti.net greindi frá í október þá stefnir Gary á að fá íslenskan ríkisborgararétt. „Ég ætla að drífa mig í því. Ég verð kannski heima í þrjá daga í febrúar og ætla að sjá hvað ég get gert á þeim tíma. Það væri frábært að fá ríkisborgararétt, maður veit aldrei hvaða dyr það getur opnað," sagði Gary að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner