
Víkingur Ólafsvík skoraði sjö mörk í Ólafsvík í dag þegar Úlfarnir heimsóttu Ólafsvík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikar karla. Leikurinn endaði með 7-1 sigri Víkings Ólafsvíkur. Fótbolti.net ræddi við Brynjar Kristmundsson, þjálfara Víkings Ólafsvíkur.
Lestu um leikinn: Víkingur Ó. 7 - 1 Úlfarnir
„Við unnum bara okkar vinnu og þegar við gerum það þá eru svona leikir auðveldari."
„Við fengum smá vatnsgusu í andlitið í byrjun lentum 1-0 undir og náðum bara að svara því og eftir það þá fannst mér við vera með alla stjórnina og gerum þetta bara vel"
Brynjar Kristmundsson segir að það sé markmið hjá liðinu að fara upp úr annari deild en liðið var mjög nálægt því að komast upp í Lengjudeildina á síðasta tímabili.
„Við erum með marga góða leikmenn, stigum góð skref fram á við í fyrra og það eru allir í félaginu staðráðnir í að taka eitt skref í viðbót, vorum skrefi frá þessu í fyrra og við lærðum mikið af því tímabíli og við ætlum að reyna eins og við getum til þess að komast upp. Þessi deild er erfið, hún er flólkin spila á ótrúlega mismunandi týpum af völlum, fara í ótrúlega mörg ferðalög þannig við verðum bara að vera klárir."
Það var kalt í Ólafsvík í dag og Brynjar var spurður út í spánverjana í liði Víkinga frá Ólafsvík.
„Þetta eru þvílíkir karakterar, auðvitað er þetta erfitt fyrir þá, þeir eru vanir að spila í 25 gráðunum. Ætli það hjálpi þeim sérstaklega að vinna í frystihúsi þannig þeir venjast þessu, vinna 8-4 þannig þeir kvarta ekki. Þeir eru toppmenn, góðir í fótbolta og bæta liðið okkar klárlega og fúnkera vel inn í samfélagið hérna."