Keppni í 3. deild karla lauk um helgina. Dalvík/Reynir og KFG fóru upp í 2. deildina en Ægir féll niður í 4. deild.
Hrafnkell Freyr Ágústsson leikmaður Augnabliks er mikill séfræðingur um 3. deildina. Hér má sjá lið ársins í deildinni að hans mati.
Hrafnkell Freyr Ágústsson leikmaður Augnabliks er mikill séfræðingur um 3. deildina. Hér má sjá lið ársins í deildinni að hans mati.
John S. Connolly (Dalvík/Reynir)
Öryggið uppmálað í öllum aðgerðum og les leikinn vel. Flottar spyrnur fram völlinn. Fékk fæst mörk á sig í deildinni.
Sindri Þór Ingimarsson (Augnablik)
Stór og stæðilegur varnarmaður sem les leikinn mjög vel og er góður á boltann. Sindri fór í bandaríska háskólaboltann í lok Júlí og við það veiktist lið Augnabliks.
Kelvin W. Sarkorh (Dalvík/Reynir)
Nautsterkur og fljótur miðvörður. Átti sjaldan í vandræðum með sóknarmenn deildarinnar. Lykilmaður í toppliðinu.
Andri Snær Sævarsson (KF)
Ungur varnarmaður sem var á láni frá KA. Hávaxinn, les leikinn mjög vel og þorir að spila boltanum á milli línanna. Ólíklegt að KF haldi honum á næsta tímabili.
Tómas Joð Þorsteinsson (KFG)
Var meðal bestu manna hjá Garðbæingum. Óþreytandi upp og niður kantinn. Með góðan vinstri fót sem var mikilvægur í spili liðsins.
Sveinn Margeir Hauksson (Dalvík/Reynir)
Efnilegur miðjumaður með fínar spyrnur og les leikinn vel. Verður gaman að sjá hvort hann geti tekið enn meiri framförum í 2. deildinni á næsta ári.
Marinó Þór Jakobsson (Vængir Júpíters)
Jafnbesti leikmaður Vængjanna. Stýrði spilinu vel á miðjunni og var ein helsta ástæða þess að Vængirnir enduðu í efri hluta deildarinnar.
Ingólfur Sigurðsson (KH)
Ingólf þarf ekki að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum landsins. Arkitektinn af nánast öllu í best spilandi liði deildarinnar. Ef KH skora eru svona 80% líkur að hann komi að markinu á einhvern hátt.
Jóhann Ólafur Jóhannsson (KFG)
Markahæsti maður deildarinnar með 15 mörk. Stór framherji og er góður með bakið í markið.
Nökkvi Þeyr Þórisson (Dalvík/Reynir)
Byrjaði af miklum krafti í markaskorun en skoraði lítið seinna hluta móts. Hrikalega snöggur með fína tækni. Mjög spennandi leikmaður.
Númi Kárason (Einherji)
Raðaði inn mörkunum fyrir Einherja, 11 talsins. Snöggur og sterkur leikmaður með mikið markanef. Verður athyglisvert að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur.
Athugasemdir