Spænski stjórinn Pep Guardiola var nokkuð ánægður markalausa jafnteflið gegn Manchester United á Old Trafford í dag, en talaði einnig um það neikvæða og sérstaklega níðsöngva sem stuðningsmenn Man Utd sungu um Phil Foden og móður hans.
Leikur United og City fer ekki í neinar sögubækur fyrir skemmtanagildi.
Dauðafærin voru fá og virtust bæði liðin greinilega sátt við að deila stigunum.
Guardiola var að minnsta kosti sáttur við frammistöðu sinna manna.
„Þetta var jafn leikur. Þeir fengu færi og við líka, en eina vandamálið er að við hreyfðum okkur of mikið með boltann. Við þurftum að vera í réttum stöðum og það gerðum við ekki.“
„Mér fannst þeir spila vel. Rico var mjög góður og er ég sáttur við frammistöðu allra,“ sagði Guardiola.
Erling Braut Haaland verður frá út tímabilið og þarf því Guardiola að treysta á aðra menn til að sjá um mörkin, en hvernig mun hann fara að því?
„Það fer eftir ýmsu. Við setjum menn inn sem eru með gott auga fyrir marki, með Omar og Phil og síðan Gundo og Kev með góðar fyrirgjafir á þá. Við höfum lifað við þessar aðstæður í mörg ár, en vorum samt mjög góðir þegar það kom að ákefð og er ég mjög sáttur með hvernig við gerðum hlutina.“
Stuðningsmenn United sungu níðsöngva um Phil Foden og móður hans og var Guardiola spurður út í þá. Hann skilur ekki af hverju þeir blönduðu móður hans inn í það með því að kalla hana lausláta.
„Það vantar allan klassa, en þetta er ekki Man Utd heldur fólkið. Við erum svo sýnilegir og fólkið sem er á skjánum í heimsfótboltanum; stjórar, eigendur og fótboltamenn sérstaklega.“
„Í allri hreinskilni þá skil ég ekki hug fólks sem ákveður að blanda mömmu hans Phil í þetta. Það vantar heilleika, klassa og ættu þeir allir að skammast sín,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir