Arsenal til í að opna veskið fyrir Lautaro - Gibbs-White á blaði Man City - Osimhen vill til Juve eða Englands
   sun 06. apríl 2025 17:12
Brynjar Ingi Erluson
Íslensk mörk í sigri Spörtu - Stefán Ingi skoraði tvennu í Noregi
Nökkvi Þeyr skoraði seinna mark Spörtu
Nökkvi Þeyr skoraði seinna mark Spörtu
Mynd: Sparta Rotterdam
Stefán Ingi er kominn með tvö mörk og eina stoðsendingu í fyrstu tveimur leikjunum
Stefán Ingi er kominn með tvö mörk og eina stoðsendingu í fyrstu tveimur leikjunum
Mynd: Sandefjord
Kristian Nökkvi Hlynsson og Nökkvi Þeyr Þórisson skoruðu mörk Spörtu Rotterdam í 2-0 sigri liðsins á NEC Nijmegen í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

Kristian, sem er á láni frá Ajax, skoraði á 33. mínútu leiksins með skalla, en markið fór af leikmanni Nijmegen og í stöngina og inn. Óvíst er hvort hann fái markið endanlega skráð á sig en það telur í bili.

Nökkvi Þeyr kom inn af bekknum í síðari hálfleik og gulltryggði sigurinn á 84. mínútu. Íslendingarnir allt í öllu hjá Spörtu sem er í 12. sæti hollensku deildarinnar með 31 stig.

Kolbeinn Birgir Finnsson kom inn af bekknum hjá Utrecht í fyrri hálfleik í 2-2 jafntefli gegn Go Ahead Eagles. Staðan var 2-0 fyrir Eagles þegar Kolbeinn kom inn á, en nokkrum mínútum síðar var staðan orðin jöfn.

Utrecht er í 4. sæti með 53 stig og eygir von um að komast í Meistaradeildina fyrir næstu leiktíð.

Elías Már Ómarsson byrjaði í fremstu víglínu hjá NAC Breda sem tapaði fyrir toppliði Ajax, 3-1, í Amsterdam. Breda er sex stigum fyrir ofan fallsæti þegar sex leikir eru eftir.

Í dönsku deildinni spilaði Sævar Atli Magnússon allan leikinn er Lyngby tapaði fyrir Silkeborg, 2-1, á útivelli. Þá byrjuðu þeir Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason í liði SönderjyskE sem tapaði fyrir Viborg með sömu markatölu.

Sönderjyske er í 10. sæti í fallriðli úrvalsdeildarinnar með 20 stig, tveimur stigum fyrir ofan Lyngby sem er í fallsæti.

Ísak Andri Sigurgeirsson byrjaði hjá Norrköping sem tapaði fyrir AIK, 4-3, í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór Ingvi Traustason, lykilmaður Norrköping, kom inn af bekknum í síðari hálfleik, en Norrköping er með þrjú stig eftir tvo leiki.

Hlynur Freyr Karlsson spilaði allan leikinn í vörn Brommapojkarna sem tapaði fyrir Hammarby, 2-0. Brommapojkarna eru án stiga.

Hjörtur Hermannsson var maður leiksins er Volos gerði markalaust jafntefli við Panetolikos í fallriðli grísku úrvalsdeildarinnar.

Árbæingurinn læsti vörninni og fékk 7,8 í einkunn á FlashScore. Volos er í næst neðsta sæti með 24 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Stefán Ingi Sigurðarson byrjar tímabilið frábærlega með norska úrvalsdeildarliðinu Sandefjord en hann gerði tvö mörk er Sandefjord vann Molde 3-0. Bæði mörk Stefáns komu í fyrri hálfleiknum. Stefán var maður leiksins í dag.

Framherjinn lagði einnig upp mark í fyrstu umferðinni og verður gaman að sjá hvernig framhaldið verður. Þetta voru fyrstu stig Sandefjord á tímabilinu.

Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á undir lok leiks fyrir Sarpsborg sem gerði 1-1 jafntefli við Vålerenga. Sarpsborg er með 4 stig.

Landsliðsmaðurinn Logi Tómasson byrjaði þá hjá Strömsgodset sem valtaði yfir Haugesund, 5-0, á útivelli. Logi fór af velli snemma í síðari hálfleik en liðið er með þrjú stig eftir tvær umferðir.

Athugasemdir
banner
banner