Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   sun 06. apríl 2025 17:39
Brynjar Ingi Erluson
England: Markalaust í bragðdaufum Manchester-slag
Úr leiknum í dag
Úr leiknum í dag
Mynd: EPA
Manchester Utd 0 - 0 Manchester City

Manchester United og Manchester City deildu stigunum í bragðdaufum leik í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í dag en lokatölur urðu 0-0.

Áhorfendur héldu líklega að æsispennandi og skemmtilegur leikur væri í vændum miðað við byrjun hans. Ruben Dias braut á Alejandro Garnacho við vítateigslínuna og kölluðu United-menn eftir víti en VAR staðfesti við dómarann að brotið væri fyrir utan og því aukaspyrna dæmd.

Man City pressaði United næstu mínútur en United-vörnin stóð það af sér. Eftir tuttugu mínútur fengu heimamenn dauðafæri til að komast yfir þegar Diogo Dalot kom með fyrirgjöfina inn í teiginn. Manuel Ugarte rétt missti af boltanum og var Garnacho ekki að búast við því og skaust boltinn einhvern veginn af honum og færið í súginn.

Staðan markalaus í hálfleik en besta færi leiksins kom strax í byrjun síðari er Omar Marmoush sendi Phil Foden í gegn sem var kominn í dauðafæri en Noussair Mazraoui tókst að elta hann uppi og koma United til bjargar á síðustu stundu.

Þegar hálftími var eftir fékk Man City aukaspyrnu sem Marmoush stýrði yfir vegginn en Andre Onana vel á verði og tókst að verja spyrnuna.

Varamenn United færðu liðinu smá líf á lokakafla leiksins. Joshua Zirkzee var viss um að hann væri að fara skora þegar hann lét vaða eftir laglega fyrirgjöf Patrick Dorgu en Ederson náði að verja frábærlega. Boltinn datt fyrir Mason Mount, en City-menn komust fyrir skotið.

Engin mörk í dag og markalaust jafntefli niðurstaðan. Man City er í fimmta sæti með 52 stig en Man Utd í 13. sæti með 38 stig.
Athugasemdir
banner
banner