Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   mán 07. apríl 2025 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Fernandes: Þurfum að gera það ef ætlum að vera stórlið eins og Liverpool og Man City
Bruno Fernandes
Bruno Fernandes
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, segir að liðið þurfi að skila inn góðri frammistöðu í hverjum einasta leik til að það geti kallast stórlið, en þetta sagði hann eftir markalausa jafnteflið gegn nágrönnum þeirra í Manchester City.

United fékk nokkur góð færi til að skora gegn Man City á Old Trafford en eins og oft áður var liðið í vandræðum með að nýta þau.

„Ég er ánægður með frammistöðuna en við þurfum stig. Við spiluðum gegn mjög góðu liði en við gátum tekið leikinn í okkar hendur og það vantaði drápseðlið til að skora mörkin. Þegar þú spilar gegn Manchester City þá veistu að þeir verða mikið með boltann. Drápseðlið var ekki til staðar en við sköpuðum samt mörg færi.“

„Við verðum að halda áfram og ekki bara út tímabilið heldur allt sem kemur á eftir því,“
sagði Fernandes.

Hann segist vita af þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera fyrirliði til að koma United yfir línuna í svona leikjum.

„Við vitum að ég fæ meiri athygli en aðrir því ég er fyrirliðinn og þarf að standa mig í hvert einasta sinn sem ég mæti á völlinn. Framlagið mun aldrei vanta og öll einbeiting mín hefur verið á að sýna öðrum leikmönnum það.“

Fernandes segir að United geti ekki kallað sig stórlið á þessum tímapunkti og að liðið þurfi stöðugt að skila svona frammistöðu til að komast á þann stall.

„Þessir leikir skilgreina það ekki. Við vitum af pressunni sem fylgir því að mæta stóru liðunum og athyglin er til staðar. Ef við viljum vera stórt lið eins og Manchester City og Liverpool þá þarf að vera samræmi (í spilamennskunni). Ef við slökum á eftir þennan leik og höldum að það sé nóg þá förum við aftur um eitt skref. Við þurfum að halda áfram að gera þetta.“

Einnig talaði hann um hvernig leikurinn væri búinn að breytast og að svona grannaslagir væru ekki eins og þeir voru hér árum áður þar sem mátti sjá grófar tæklingar, slagsmál og nóg af spjöldum.

„Þetta verður aldrei eins og þetta var. Margt hefur breyst, með komu VAR og öllu. Það er ekki hægt að gera þetta með VAR og við getum ekki verið eins grófir og við viljum vera í einvígum. Allt hefur breyst,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner