Afturelding spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í kvöld þegar liðið tapaði gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á Kópavogsvelli. Fótbolti.net ræddi við Magnús Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 0 Afturelding
„Skemmtilegt fyrir Mosfellsbæ að spila fyrsta leik í efstu deild. Að sjálfsögðu hefði ég viljað geta gert betur, fyrri hálfleikur var ekki nógu góður hjá okkur. Seinni hálfleikur var mun betri," sagði Maggi.
Breiðablik komst yfir snemma leiks þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr vítaspyrnu. Magga fannst vítið slá menn utanundir, hann var spurður um siitt álit á dómnum.
„Leiðinlegt að þeir séu að fá ódýra vítaspyrnu þegar það er lítið búið af leiknum og ekkert í gangi. Eins og Gylfi Orra sagði: 'Þetta jafnast alltaf út á endanum'," sagði Maggi.
Maggi mætti bróður sínum, Antoni Ara Einarssyni, markmanni Blika, í kvöld en Anton Ari varði frábærlega undir lok leiksins frá Aroni Elí Sævarssyni.
„Hann hefði mátt sleppa þessu. Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég er pirraður á honum. Ég er eiginlega valdur þess að hann fari að æfa mark því ég setti hann í mark í garðinum heima á síinum tíma og þetta er í eina skiptið sem ég sé eftir því. Það er gaman að fylgjast með ferlinum hans, þetta var hrikalega vel varið hjá honum ég verð að gefa honum það," sagði Maggi.
Athugasemdir