Davíð Smári og hans menn í Vestra gerðu sér lítið fyrir og náðu í 1-1 jafntefli við Val í fyrsta leik þessara liða í Bestu-deild karla 2025.
Hvernig var tilfinningin eftir leik hjá Davíð?
„Hrikalega góð, ekki auðvelt að koma hingað og sækja í stig. Ekki frábær leikur af okkar hálfu á bolta. Mikið af skítugum sendingum og eitthvað sem við þurfum að laga en varnarlega frábær frammistaða og mikill karakter í liðinu. Mikil samheldni og við náðum að sýna fyrir hvað við stöndum sem lið og sem liðsheild. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum fyrir það.“
Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Vestri
Valur átti nokkur mjög góð færi snemma leiks, fór ekki umn Davíð þegar hann sá byrjun leiksins þar sem Valsmenn voru með öll völd á vellinum?
„Auðvitað fer um mann, við erum að spila á móti sterku liði. Mér fannst hægjast á þeim strax undir lok fyrri hálfleiks og það er eitthvað sem við tókum með okkur inn í hálfleik, að það myndi hægjast á þeim. Vissulega fóru þeir í mikið af löngum boltum hérna undir lokin en mér fannst við díla hrikalega vel við það. Við erum náttúrulega með gríðarlega sterka hafsenta og frábæran markmann og góða bakverði. Svo má ekki gleyma miðjumönnunum okkar þannig ég talið upp allt liðið okkar eftir svona frammistöðu.“
Ræðan í seinni hálfleik, gleyma menn henni fljótt þegar svona mark dettur eins og opnunarmarkið?
„Fáum hálfpartinn mark á tombólu. Við vorum svolítið heppnir í dag en frammistaðan verðskuldaði að við myndum fá eitthvað út úr leiknum. Það lá mikið á okkur á móti gríðarlega sterku liði og maður uppsker eins og maður sáir.“
Daði Berg haltrar út af, veit Davíð stöðuna á honum?
„Þetta var einhver stífleiki. Það var hart tekið á honum og ekki bara honum, Túfa er allur blár og marinn en svoleiðis á það að vera og um það snýst fótbolti. En ég er bara ánægður að það sé tekið á okkar mönnum og við fáum að taka á þeim á móti. Mér fannst gott flæði í leiknum og má til með að hrósa dómara leiksins líka, ég er mjög ánægður með hann og heilt yfir sáttur.“
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.