Úlfarnir hafa svo gott sem staðfest áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Ipswich Town í fallbaráttunni í dag.
Níu stig skildu Ipswich og Wolves að fyrir leikinn. Ipswich var í 18. sæti á meðan Wolves var í sætinu fyrir ofan en þessi leikur skipti miklu máli upp á framhaldið.
Ipswich fékk óskabyrjun er Liam Delap potaði skallasendingu Dara O'Shea í netið.
Úlfarnir áttu laglega endurkomu á síðustu tuttugu mínútunum en varamaðurinn Pablo Sarabia skoraði með skoti úr teignum neðst í hægra hornið og tólf mínútum síðar gerði Norðmaðurinn Jörgen Strand Larsen sigurmarkið eftir laglega sendingu Sarabia. Mögnuð innkoma hjá Spánverjanum og Úlfarnir svo gott sem hólpnir.
Þeir eru nú í 17. sæti með 32 stig, tólf stigum meira en Ipswich þegar sjö umferðir eru eftir.
Þrjú rauð spjöld fóru á loft er Crystal Palace vann Brighton, 2-1, á Selhurst Park.
Franski sóknarmaðurinn Jean-Philippe Mateta kom Palace yfir á 3. mínútu leiksins áður en Danny Welbeck svaraði tæpum hálftíma síðar.
Daniel Munoz skoraði sigurmark Palace með góðu hægri fótar skoti í vinstra hornið eftir sendingu Eberechi Eze og reyndist það sigurmark leiksins.
Palace-menn þurftu að leggja allt í sölurnar til þess að halda út, en Eddi Nketiah, sem kom inn á sem varamaður, var rekinn af velli með seinna gula á 78. mínútu fyrir óheppilegt brot og þá var Marc Guehi, miðvörður liðsins, rekinn af velli snemma í uppbótartíma með sitt seinna gula fyrir ljóta tæklingu.
Jan Paul van Hecke fékk þriðja og síðasta rauða spjald leiksins er hann braut á Daichi Kamada sem var að sleppa í gegn. Palace hélt út eftir fjörugan leik og er nú í 11. sæti með 43 stig en Brighton með 47 stig í 8. sæti.
West Ham og Bournemouth gerðu 2-2 jafntefli í Lundúnum þar sem brasilíski framherjinn Evanilson skoraði tvö mörk.
Hann gerði fyrra mark sitt á 38. mínútu eftir að hafa hirt frákast eftir skot Antoine Semenyo en West Ham tókst að snúa stöðunni sér í hag á sjö mínútna kafla í síðari hálfleik.
Þýski kraftframherjinn Niclas Füllkrug skoraði með föstum skalla eftir hornspyrnu á 61. mínútu og sjö mínútum síðar kom Jarrod Bowen þeim í forystu með laglegum skalla úr miðjum teignum eftir fyrirgjöf frá vinstri.
Evanilson sá til þess að Bournemouth færi ekki tómhent heim er hann mætti skalla Dean Huijsen á fjærstönginni og potaði boltanum í netið.
Níunda deildarmark hans og skilaði góðu stigi til Bournemouth sem er í 9. sæti með 45 stig en West Ham í 15. sæti með 35 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Crystal Palace 2 - 1 Brighton
1-0 Jean-Philippe Mateta ('3 )
1-1 Danny Welbeck ('31 )
2-1 Daniel Munoz ('55 )
Rautt spjald: , ,Edward Nketiah, Crystal Palace ('78)Marc Guehi, Crystal Palace ('90)Jan Paul van Hecke, Brighton ('90)
Ipswich Town 1 - 2 Wolves
1-0 Liam Delap ('16 )
1-1 Pablo Sarabia ('72 )
1-2 Jorgen Strand Larsen ('84 )
West Ham 2 - 2 Bournemouth
0-1 Evanilson ('38 )
1-1 Niclas Fullkrug ('61 )
2-1 Jarrod Bowen ('68 )
2-2 Evanilson ('79 )
Athugasemdir