Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, átti mjög sjaldgæfa slaka frammistöðu með liðinu í dag er það tapaði fyrir Fulham, 3-2, á Craven Cottage, en Arne Slot, stjóri félagsins, segir þetta vera eðlilegt.
Van Dijk er álitinn einn besti varnarmaður heims og verið það í tæpan áratug.
Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Liverpool-liðinu, en leit afar illa út í þriðja mark Fulham í dag.
Rodrigo Muniz fór illa með Hollendinginn er hann tók frábærlega á móti háum bolta, lak honum aftur fyrir Van Dijk og skoraði.
„Ég er aðallega í því að hrósa mönnum. Van Dijk er ekki fyrsti leikmaðurinn sem er í erfiðleikum með að verjast gegn Beto og þeim sem spilaði hér í dag. Þú verður líka að hrósa honum.“
„Ég sé enn marga hluti sem Virgil gerir mjög vel, en ef þú spilar 50-60 leiki á tímabiili þá munu koma augnablik, jafnvel fyrir hann, þar sem hann hefði getað gert betur,“ sagði Slot.
Van Dijk verður samningslaus eftir tímabilið og er sem stendur í viðræðum við Liverpool. Hann sagði á dögunum að fólk mætti fara að búast við fréttum á næstu vikum, en Liverpool heldur í vonina um að halda honum og Mohamed Salah áfram.
Útlitið er aðeins svartara þegar það kemur að Trent Alexander-Arnold, sem er sagður hafa gert samkomulag við Real Madrid, en ekkert hefur verið tilkynnt til þessa og halda stuðningsmenn í veika von um að hann verði áfram.
Athugasemdir