Wolves reynir við Sancho - Arsenal skoðar aðra kosti - Garnacho á förum?
   lau 05. apríl 2025 12:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Fókusinn er á að gefa því séns eins og Víkingar gerðu"
Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra og fer því meistaraleiðina í Evrópu.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra og fer því meistaraleiðina í Evrópu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikarnir Höskuldur Gunnlaugsson og Halldór Árnason ræddu við Fótbolta.net í vikunni þar sem þeir voru spurðir út í komandi Íslandsmót. Breiðablik kemur inn í mótið sem ríkjandi Íslandsmeistari og mun því fara svokallaða meistaraleið í Evrópu í sumar. Liðið getur einungis mætt meisturum annarra landa á leið sinni í deildarkeppni í Evrópu.

Með því að hefja leik í forkeppni Meistaradeildarinnar fær Breiðablik að lágmarki eitt öryggisnet; má tapa einu einvígi án þess að falla úr leik. Ef liðið vinnur einvígi í forkeppni Meistaradeildarinnar verða öryggisnetin tvö því lið sem falla úr leik í eða eftir 2. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni falla niður í forkeppni Evrópudeildarinnar og geta þaðan fallið niður í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Alls þarf að spila fjögur einvígi, og vinna það síðasta, til þess að komast í deildarkeppni í Evrópu.

En hvort er mikilvægara, að verða aftur Íslandsmeistari eða komast í deildarkeppni í Evrópu?

„Mig langar, fyrir fram, að geta lært frá okkar reynslu árið 2023. Víkingur gerði helvíti vel á síðasta tímabili að geta verið samkeppnishæfir allt til enda á öllum vígstöðvum. Fókusinn er svolítið þar, að gefa því séns og sjá til þess að við séum í færi alls staðar. Ég ætla ekki að gera upp á milli þessara barna," sagði fyrirliðinn Höskuldur.

Tímabilið 2023 komst Breiðablik í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en missti frekar snemma af Víkingum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og féll úr leik í ótrúlegum leik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins þar sem KA sló Blika úr leik eftir vítaspyrnukeppni. Tímabilið 2023 fór Breiðablik meistaraleiðina í Evrópu og Víkingur gerði það sama 2024. Í bæði skiptin komust liðin í riðla/deildarkeppni.

„Við getum ekki gert upp á milli. Við þurfum bara að taka eina viku í einu og einn leik í einu. Það er hálft Íslandsmót og nokkrir bikarleikir áður en Evrópa byrjar. Það er okkar verkefni núna að passa að við séum á góðum stað þegar Evrópukeppnin byrjar; passa að hreyfa og nota hópinn okkar þannig að við getum barist á öllum vígstöðvum. Það verður að vera þannig. Víkingar sýndu það í fyrra, fóru í úrslitaleik bæði í bikar og Íslandsmóti og langt í Evrópu, sýndu að það er hægt. Við ætlum okkur það," sagði þjálfarinn Halldór.

Breiðablik hefur leik í Bestu deildinni í dag þegar Afturelding kemur í heimsókn á Kópavogsvöll. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og má búast við að báðar stúkur verði fullar. Viðtölin við Blikana tvo má nálgast hér að neðan.
Höskuldur um tilboð Brann: Heiður fyrir verðandi 31 árs krullhaus
Dóri Árna um Þorleif: Í draumaheimi væri það flott lausn
Athugasemdir
banner
banner
banner