Írski sparkspekingurinn Roy Keane er ekki hrifinn af hugmyndafræði Ruben Amorim, stjóra Manchester United, og þá sérstaklega með þann hóp sem hann er með í höndunum núna.
Amorim hefur haldið fast í 3-4-3 leikkerfið síðan hann tók við þó það hafi ekki beinlínis gengið eins og í sögu þá hefur hann trú á að þetta muni virka þegar horft er til lengri tíma.
Keane segir að aðalmarkmið stjórans sé að vinna leiki og vera aðeins fjölhæfari þegar það kemur að því að velja leikkerfi á þessu tímabili.
Hann hefur ekki mikla trú á að United verði meðal efstu liða á næsta tímabili en vonar þó innilega að Amorim troði sokk upp í hann.
„Stjórinn ætlar að halda sig við það. Hann er að veðja á það. Ef hann nær ekki í úrslit á næsta tímabili, þar sem hann mun klárlega fá tækifæri til að styrkja hópinn í sumar, munum við geta dæmt hann betur. Þetta er hans trú og hugmyndafræði og það er bara í fínu lagi, en ég er meira hrifinn af hugmyndafræðinni að vinna fótboltaleiki.“
„Ég man ekki eftir því að hafa setið með leikmönnum sem ég spilaði með eða sumum frábæru þjálfurum sem ég spilaði fyrir þar sem við ræddum okkar hugmyndafræði. United reyndi að spila frá aftasta manni og lentu í vandræðum í nokkur skipti. Ég er ekki hrifinn af því.“
„Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og að United endi meðal fjögurra eða fimm efstu á næsta tímabili en ég sé það bara ekki gerast. Ég horfði á Forest-leikinn á dögunum og var sparkandi tebollanum af borðinu. Þeir voru aldrei að fara skora,“ sagði Keane.
Athugasemdir