Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var ekki alls kosta sáttur með frammistöðu dómarans í 1-1 jafnteflinu gegn Everton á Goodison Park í dag.
Arsenal fékk á sig ódýra vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks er Myles Lewis-Skelly reif niður Jack Harrison.
Umrætt brot byrjaði fyrir utan teiginn áður en Harrison féll í teignum en báðir toguðu í hvorn annan, með þeim afleiðingum að Harrison féll í grasið.
Arteta segist óánægður með ákvörðun dómarans að dæma vítaspyrnu.
„Við fengum á okkur víti sem mér fannst alls ekki vera vítaspyrna. Þetta var mjög skýrt. Það er ekki nógu mikil snerting og hún átti sér stað fyrir utan teig en það var ekkert sem gerðist inn í honum,“ sagði Arteta við BeIN Sports.
PGMOL, dómarasamband ensku úrvalsdeildarinnar, útskýrði ákvörðunina í kjölfarið.
„Ákvörðun dómarans um að dæma vítaspyrnu á brot Lewis-Skelly á Harrison var skoðað og staðfest af VAR. Snertingin var nóg til að dæma vítaspyrnu og átti brotið sér stað í teignum,“ segir í tilkynningu PGMOL.
Athugasemdir