Srdjan Tufedgzic, þjálfari Vals sem er betur þekktur sem Túfa, var ekki sáttur við að ná bara í 1 stig út úr leiknum gegn Vestra í dag.
„Tilfinningin er súr. Mjög svekktur að við unnum leikinn ekki. Mér fannst bara eitt lið á vellinum og við gerðum allt nógu vel til að vinna leikinn. Mikill kraftur, alvöru tempó og fullt af færum. Þrisvar sinnum fer boltinn í tréverkið þannig mér finnst bara ósanngjarnt að við unnum leikinn ekki.“
Lestu um leikinn: Valur 1 - 1 Vestri
Túfa vill vinna alla leiki og fannst hans menn mega gera betur á síðasta þriðjungi vallarins.
„Ég ætla samt ekki að taka neitt af Vestraliðinu, þeir voru að henda sér fyrir allt og berjast eins og ljón en fengu þetta mark svolítið sem heppni fyrir þessa vinnu sem þeir lögðu inn.“
Valur átti urmul af færum í byrjun leiks en nýtti ekkert þeirra.
„Vantaði að vera klíníkal og nýta eitthvað af þessum færum. Við komum mjög vel inn í leikinn og það vantar bara að skora mark. Gegn liðum sem verjast svona lágt, með 5-4-1, jafnvel 5-5 oft á tíðum, þú verður bara að skora mark á undan og reyna að ná þeim ofar á völlinn. Svekkjandi að fá á okkur mark eftir nokkrar sekúndur í seinni hálfleik, við vorum bara ekki klárir þar og það er eina sem ég tek neikvætt út úr leiknum í dag.“
Af hverju ná Valsmenn ekki að halda áfram að hamra á Vestra eftir öfluga byrjun?
„Þetta er fyrsti leikurinn á tímabilinu og spennustigið er hátt. Viljinn hjá mönnum að vinna leikinn er mikill þannig efti að við náum ekki að skora mark úr þessum þremur dauðafærum fyrsta kortérið þá er eins og menn vilja fara að stytta leiðina, sem gengur aldrei upp.“
Er Stefán Þór nýr byrjunarliðsmarkvörður Valsliðsins?
„Það eru allir byrjunarliðsmenn hjá mér, allir leikmenn og allir markmenn. Ömmi, eins og ég kom inn á fyrir leik, eins og nokkrir leikmenn til viðbótar hjá okkur, er búinn að glíma aðeins við meiðsli í vetur. Ögmundur er á leiðinni í betra stand. Stefán er búinn að koma mjög vel inn hjá okkur í vetur og búinn að taka mörg skref fram á við þannig ég er mjög ánægður að hafa þá báða klára í leiki.“
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.