
„Þetta var rosalega kaflaskipt fyrri og seinni hálfleikur hjá okkur. Við komum vel inn í þennan fyrri hálfleik og gerum margt mjög vel og erum inn í leiknum þrátt fyrir að vera 1-0 undir.“ Sagði Auðun Helgason þjálfari Þróttar Vogum um fyrri hálfleikinn í viðureign liðsins gegn Keflavík í Mjólkurbikarnum í dag. Lokatölur urðu að endingu 6-0 fyrir Keflavík og hélt Auðun áfram.
„Við komum út í seinni hálfleik og erum ekki alveg andlega tilbúnir og fáum á okkur annað markið. Full auðvelt mark og eftir það er þetta bara gríðarlega erfitt. Við töpum sjálfstrausti eins og gengur og gerist stundum. Þessi úrslit gefa kannski ekki rétta mynd miðað við fyrri hálfleik en við spilum gegn okkar skipulagi og leik síðustu 40 mínúturnar og það skilar þessum úrslitum.“
Auðun er að snúa aftur í þjálfun eftir talsvert langt hlé en þessi fyrrum atvinnu og landsliðsmaður var síðast við stjórnartaumana hjá Sindra á Hornafrirði 2016.
Hvað var það sem kitlaði við að snúa aftur í þjálfun?
„Það var bara spennandi verkefni. Fótboltinn kitlar alltaf. Maður er með þessa bakteríu og er alinn upp við þetta. Þetta er alveg ótrúlega gefandi þetta umhverf, flottur hópur og vel staðið að öllu. Það bara kitlaði að fá tækifæri og ég er bara stoltur af því og þakka það traust sem mér er sýnt.“
Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Þróttar á milli tímabila og verkefnið framundan ærið fyrir Auðun og hans teymi.
„Það er aldrei ákjósanleg staða að það séu svona miklar breytingar. En við búum við það og það kemur kannski að hluta til í ljós í seinni hálfleik í dag þegar fer að slitna á milli og við eigum ennþá svolítið langt í land. Margir nýir menn komnir inn og aðrir farnir út og svo erum við að fá inn menn sem voru með í fyrra úr meiðslum og eru að spila sínar fyrstu mínútur í langan tíma. Þetta er bara verkefni og áskorun sem framundan er að búa til lið og verkefnið er ærið.“
Auðun sinnir þjálfun Þróttar meðfram starfi sínu sem deildarstjóri lögfræðideildar hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Hvernig gengur að samtvinna þessi störf?
„Það hefur bara gengið mjög vel fram að þessu og mun gera það bara áfram. Ég hef skilning frá vinnuveitendum og þetta truflar vinnuna ekki neitt. Við erum að æfa seint á kvöldi sem er svo sem ekkert ákjósanlegur tími. En þannig nær maður að klára vinnuna og fara svo í þjálfarastarfið og við spilum um helgar. Þetta er púsluspil og minni frítími fyrir fjölskylduna á meðan. En það hafa allir skilning á því og við látum þetta ganga.“
Sagði Auðun en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að pfan.
Athugasemdir