Þýska félagið RB Leipzig er að ganga frá kaupum á hollenska miðjumanninum Ezechiel Banzuzi sem er á mála hjá Leuven í Belgíu en þetta segir Fabrizio Romano á X og vitnar þar í frétt Sky Sports.
Banzuzi, sem er tvítugur, hefur spilað með Leuven frá 2023 og lék meðal annars með íslenska landsliðsmanninum Jóni Degi Þorsteinssyni á síðustu leiktíð.
Á þessari leiktíð hefur hann komið að níu mörkum með Leuven ásamt því að hafa verið fastamaður í U21 árs landsliði Hollands.
Frammistaða hans hefur heillað þá góðu menn sem vinna hjá þeim sem greina tölfræði leikmanna hjá Red Bull því hann er nú á leið til Leipzig fyrir 16 milljónir evra og verður gengið frá kaupunum í næstu viku.
Banzuzi mun ganga formlega í raðir Leipzig í sumar en það er algerlega óráðið hvort hann fái hlutverk í aðalliðinu eða hvort félagið ákveðið að lána hann út.
Leikmaðurinn ólst upp hjá NAC Breda og spilaði þar stórt hlutverk, en þar lék hann einmitt hálft ár með Keflvíkingnum Elíasi Má Ómarssyni áður en hann skipti yfir til Leuven.
Athugasemdir