Willum fékk matareitrun stuttu fyrir leik og tókst að þrauka í rúman hálftíma áður en hann bað um skiptingu
Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson spiluðu báðir í flottum 6-2 sigri Birmingham á Barnsley í ensku C-deildinni í dag en liðið er nú einum sigri frá því að tryggja sig upp um deild.
Willum fékk matareitrun stuttu fyrir leikinn og átti í raun ekki að byrja en hann lét samt á það reyna.
Hann þraukaði í 34 mínútur áður en hann bað um skiptingu en staðan var þá 1-1 og Barnsley manni færri.
Alfie May skoraði tvö fyrir Birmingham áður en Barnsley minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik en heimamenn í Birmingham héldu áfram að raða inn mörkum eftir að Alfons Sampsted kom inná á 67. mínútu og lauk leiknum með 6-2 sigri Birmingham.
Á þriðjudag mætir Birmingham liði Peterborough og getur með sigri tryggt sig aftur upp í B-deildina.
Jason Daði Svanþórsson kom inn af bekknum hjá Grimsby Town sem vann 3-1 sigur á Morecambe í D-deildinni. Mosfellingurinn spilaði síðustu fimmtán mínútur leiksins en sigurinn kom Grimsby í 7. sætið sem gefur þátttöku í umspilið.
Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Friðriksson byrjuðu báðir í liði Fortuna Düsseldorf sem vann Preussen Münster, 1-0, í þýsku B-deildinni.
Hólmbert Aron Friðjónsson tók út leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda og var því ekki með Münster. Düsseldorf er í 5. sæti með 44 stig en Münster í 15. sæti með 27 stig og heldur sér frá fallsæti á markatölu.
Birkir BJarnason kom inn af bekknum hjá Brescia sem tapaði fyrir Mantova, 2-1, í B-deildinni á Ítalíu. Brescia er í fallsæti með 34 stig þegar sex leikir eru eftir.
Helgi Fróði Ingason byrjaði í fremstu víglínu hjá Helmond Sport sem gerði 2-2 jafntefli við Telstar í B-deildinni í Hollandi. Helgi fór af velli undir lok leiks en Helmond er í 11. sæti með 45 stig, sex stigum frá umspilssæti.
Davíð Snær Jóhannsson skoraði dramatískt sigurmark fyrir Álasund sem vann 4-3 sigur á Sogndal í Íslendingaslag. Davíð byrjaði hjá Álasundi á meðan Óskar Borgþórsson kom inn af bekknum hjá Sogndal. Ólafur Guðmundsson var ónotaður varamaður hjá Álasundi sem er með 4 stig eftir tvo leiki en Sogndal án stiga.
Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson spiluðu báðir allan leikinn í liði Ham/Kam sem tapaði fyrir ríkjandi meisturum Bodö/Glimt, 3-0, í annarri umferð norsku úrvalsdeildarinnar. Ham/Kam er með 3 stig.
Kolbeinn Þórðarson og Gísli Eyjólfsson byrjuðu báðir er Gautaborg vann Halmstad, 1-0. Kolbeinn fór af velli hjá Gautaborg á 63. mínútu, stuttu eftir sigurmark liðsins á meðan Gísli fór af velli hjá Halmstad tíu mínútum fyrir leikslok. Birnir Snær Ingason var ónotaður varamaður hjá Halmstad sem er án stiga eftir tvo leiki í sænsku úrvalsdeildinni. Gautaborg var að ná í fyrsta sigur tímabilsins.
Daníel Freyr Kristjánsson var í byrjunarliði Fredericia sem vann OB, 1-0, í toppslag í meistarariðli dönsku B-deildarinnar. Daníel er á láni frá FCK.
Fredericia er í öðru sæti meistarariðilsins með 46 stig, sex stigum frá toppliði OB.
Athugasemdir