„Þetta eina glæsimark hjá Rúnari nafna mínum. Við erum þá á leið í hörkusókn og eigum slaka sendingu og úr því verður eitthvað klafs og þeir fá aukaspyrnu sem var réttilega dæmd. Frábært mark hjá Rúnari og skilur liðin að.“ Sagði Rúnar Kristinsson þjálfari Fram aðspurður hvað hefði skilið liðin að er Fram þurfti að gera sér að góðu 1-0 tap á heimavelli gegn Skagamönnum á Lambhagavellinum fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 0 - 1 ÍA
Lið Fram fékk sín tækifæri í leiknum og átti ágætis rispur úti á vellinum. Rúnar var þó ekki á því að liðið hefði endilega átt eitthvað meira skilið úr leiknum þó honum hafi fundist lið Fram stýra leiknum.
„Mér fannst við bara ekki koma nægjanlega beittir inn í leikinn. Það var erfitt að spila með vindinn í bakið. Sérstaklega þegar menn þora ekki að spila með jörðinni og spila á milli línanna. Við vorum að kýla boltanum fram sem í rauninni virkar ekki í vindi þegar þú ert með hann í bakið. Hann fýkur bara aftur fyrir endamörk eða til markmanns andstæðingana. Þannig að mér fannst við ekki þora nægjanlega í fyrri hálfleik.“
Það vakti nokkra undrun að uppbótartími síðari hálfleiks var aðeins tvær mínútur en margir höfðu reiknað með 3-4 mínútum að lágmarki. Rúnar var spurður út í málið.
„Við vorum allir mjög hissa þvi við erum farin að sjá frá fjórum og upp í tólf mínútur út um alla Evrópu en það hefur nú ekki verið hérna á Íslandi. Ég myndi alls ekki vilja hafa það svo langt en mér fannst tvær mínútur ofsalega lítið miðað við tafirnar í leiknum og í síðari hálfleik. Hvað fór mikill tími í markspyrnur og útspörk? Vísvitandi lið sem er að vinna og eðlilega reynir að hægja á leiknum. Gefa sér tvær þrjár sekúndur hér og þar og stundum tíu. Ef þú kemst upp með það og dómarinn segir að það sé bara hluti af leiknum þá er það eitthvað sem allir dómarar þurfa að gera eins í næstu umferðum.“
„Þeir gáfu okkur mjög góða útskýringu og haldbæra og ef það er þannig þá eru við bara að fara að sjá það áfram í sumar,“
Sagði Rúnar en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir