Launakostnaður Williams yrði hár fyrir Arsenal - Lucca aðalskotmark Man Utd - Tottenham vill halda Kulusevski
   fös 04. apríl 2025 22:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mætt aftur eftir hlé frá fótbolta - „FH mjög spennandi kostur"
Samdi við FH.
Samdi við FH.
Mynd: FH
Hildur Þóra á að baki 25 leiki fyrir yngri landsliðin.
Hildur Þóra á að baki 25 leiki fyrir yngri landsliðin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur alls spilað 113 meistaraflokksleiki.
Hefur alls spilað 113 meistaraflokksleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur Þóra Hákonardóttir var í gær tilkynnt sem nýr leikmaður FH. Hún kemur í Kaplakrika frá Breiðabliki þar sem hún er uppalin. Hildur Þóra er 23 varnarmaður sem hefur til þessa einungis spilað með Breiðabliki eða venslaliðinu Augnabliki.

Hún gat ekkert spilað í fyrra vegna meiðsla. Hún fór yfir félagaskiptin í samtali við Fótbolta.net.

„Þetta kom í rauninni mjög óvænt upp og planið var ekkert endilega að spila í sumar. En ég var í fríi heima núna í mars og lenti óvænt inn á æfingum hjá FH. Það var bara mjög gaman og mér leist vel á," segir Hildur Þóra.

„Ég fékk höfuðhögg í júlí 2023 og hef verið frá fótbolta síðan, en þetta var þriðja höfuðhöggið sem hefur haldið mér frá fótbolta. Ég var mikið í kringum liðin fyrsta árið eftir höggið að reyna að koma mér til baka en svo eru mjög strangar reglur úti varðandi höfuðhögg. Það eru alls konar próf sem þarf að taka til að mega spila aftur og ég var alltaf að falla á þeim prófum. Þannig síðasta sumar ákvað ég að taka mér frí frá fótboltanum og var ekki mikið í kringum liðið. En ég hef verið einkennalaus síðustu mánuði og líður vel, og er bara á fullu að koma mér til baka."

Hildur Þóra hefur verið við nám í Bandaríkjunum síðustu ár við Harvard háskólann í Boston. Meira um það hér á eftir. En hvað heillar mest við FH?

„FH er með ótrúlega spennandi og skemmtilegt lið, gott þjálfarateymi, og góða aðstöðu. Eftir ár af því að reyna að koma mér til baka þá ákvað ég að taka smá pásu frá fótboltanum og hef verið að segja það þegar fólk hefur verið að spyrja. Nik (þjálfari Breiðabliks) hafði samband síðasta haust en þá var ég bara ekki tilbúin að spila aftur. En svo kom FH upp nýlega og sýndi mikinn áhuga og þá var það bara mjög spennandi kostur."

Hildur segir að hennar besta staða á vellinum sé miðvörður, „en ég hef verið að spila allar stöður í vörninni og á miðjunni. Hef verið að koma seint til Íslands og fara snemma síðustu sumur þannig hef verið að leysa bara það sem vantar á þeim tíma."

Markmið Hildar er að koma sér aftur á fullt og hjálpa FH liðinu að gera flotta hluti í sumar.

Mæli með að allir skoði þennan möguleika
Þá að Harvard, hvað getur Hildur sagt um námið; hvernig er að spila fótbolta meðfram náminu og hvernig er lífið í Bandaríkjunum?

„Námið í Harvard hefur gengið mjög vel. Ég er að útskrifast núna í maí úr vélaverkfræði. Harvard er á frábærum stað, beint flug til Boston, og mín upplifun er bara mjög góð. Ég elska námið, lífið á campus, og góð aðstaða til að æfa. Maður labbar allt og er í smá búbblu."

Mælir hún með því að leikmenn skoði þennan kost, að fara til Bandaríkjanna í háskóla og spila fótbolta með?

„Varðandi þennan möguleika, þá myndi ég segja að það fari rosalega eftir því hvað þú vilt út úr námi og fótbolta almennt. Fyrir mig er ég sterkur námsmaður og sá tækifæri þarna að gera bæði. Og það eru margir að sýna að þú getir gert bæði á háu leveli. Við erum til dæmis með þrjá leikmenn í Harvard sem eru með sínum landsliðum núna í þessum landsleikjaglugga."

„Ég er búin að þroskast ótrúlega mikið á þessu og mæli með fyrir alla að skoða þennan möguleika. Ég held það séu kostir og gallar við hvaða leið sem þú velur að fara,"
segir Hildur.

Hún stefnir á að geta spilað með FH í kringum næstu mánaðamót. Hún útskrifast svo frá Harvard þegar hlé er á Bestu deildinni í lok maí.
Athugasemdir