
„Þetta var ótrúlega sérstök og góð tilfinning," segir Ingibjörg Sigurðardóttir sem leiddi íslenska landsliðið út á völlinn gegn Noregi í dag. Hún var með fyrirliðabandið í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttur.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 0 Noregur
Þú sást væntanlega fjölskyldu og vini í stúkunni. Gerði það þetta enn sætara?
„Þetta getur varla verið sætara. Ég er mjög stolt af liðinu líka. Þær hjálpuðu mér í þessu. Þær vita hvað þetta þýðir mikið fyrir mig."
Eitt besta augnablikið í lífinu?
„Já, það er alveg hægt að segja það. Það er svolítið erfitt að setja orð á þetta núna. En þetta er klárlega eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og mjög stórt fyrir mig."
Leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Er þetta stig sem við tökum?
„Við tökum það alveg. En við eigum að vinna þennan leik. Við fáum færin í það. Við þurfum að vera aðeins kaldari í hausnum og klára færin okkar. Við erum að koma okkur í mörg færi núna. Það vantaði bara þetta síðasta núna," sagði Ingibjörg en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan þar sem hún ræðir frekar um leikinn.
Athugasemdir