Íslendingalið Panathinaikos er komið upp í annað sæti grísku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa unnið 3-1 sigur á nágrönnum sínum í AEK í 28. umferðinni í kvöld.
Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Panathinaikos og með bestu leikmönnum liðsins.
Sigurinn var sérstaklega mikilvægur fyrir liðið eftir að hafa tapað fyrir erkifjendunum í Olympiakos í síðustu umferð.
Hörður Björgvin Magnússon var ekki í hópnum í kvöld en hann mun væntanlega snúa aftur á næstu vikum eftir að hafa jafnað sig af hnémeiðslum.
Panathinaikos er komið upp fyrir AEK á töflunni og í annað sætið með 56 stig eins og AEK, en Panathinaikos hefur betur í innanbyrðisviðureignum. Lítill möguleiki er þó á titilbaráttu þar sem Olympiakos er með tíu stiga forskot fyrir síðustu átta leiki tímabilsins.
Atli Barkarson var í byrjunarliði Waregem sem gerði markalaust jafntefli við Seraing í belgísku B-deildinni. Waregem er í öðru sæti með 56 stig, einu stigi frá toppnum þegar tveir leikir eru eftir af hefðbundinni tveggja umferða deild.
Kristófer Jónsson lék þá allan leikinn með Triestina sem vann óvæntan 1-0 sigur á Renate í A-riðli C-deildarinnar á Ítalíu. Mikilvæg þrjú stig í fallbaráttunni en Triestina er nú þremur stigum frá öruggu sæti þegar þrír leikir eru eftir.
Athugasemdir