Arne Slot, stjóri Liverpool, segir að það hafi kostað liðið gríðarlega að hafa fengið á sig þrjú mörk eftir varnarmistök í fyrri hálfleik í 3-2 tapinu gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Varnarmenn Liverpool buðu upp á röð mistaka á fjórtán mínútna kafla í fyrri hálfleik, en náði að stilla saman strengi í þeim síðari. Það var hins vegar ekki nóg til að taka stig á Craven Cottage.
Liverpool er nú með ellefu stiga forystu á toppnum þegar sjö umferðir eru eftir.
„Þessi 14 mínútna kafla var mjög erfiður. Fyrir utan gæði Fulham og vel afgreidd færi þá voru það aðallega mistökin okkar sem kostuðu okkur.“
„Vanalega erum við ekki að gera svona mistök og hvað þá þrjú í leik. Frammistaðan í seinni hálfleik var mun betri en það er erfitt að vinna leiki á þessu stigi ef þú færð á þig þrjú mörk í fyrri hálfleik.“
„Því miður þá höfðum við ekki tímann til að skora þriðja markið. Fólk vill búa til sögur sem er þeirra starf en það eru mörg lið sem eru í vandræðum þegar þau spila gegn Fulham. Frammistaðan í seinni hálfleik var framúrskarandi. Við fengum færin en tíminn var ekki nægur,“ sagði Slot.
Mohamed Salah, langbesti leikmaður Liverpool á tímabilinu, hefur verið ískaldur í síðustu leikjum og ekki skorað mark síðan gegn Southampton þann 8. mars.
„Við ættum kannski að líta á það sem hrós því tölurnar voru ekki eðlilegar (þegar hann var að skora). Það góða við Mo er að hann veit hvers konar leikmaður hann er og hann mun koma aftur til baka. Ég hef engar áhyggjur af því,“ sagði Slot enn fremur.
Athugasemdir