Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
banner
   sun 22. september 2024 14:59
Brynjar Ingi Erluson
England: Brighton og Forest áfram taplaus - Báðir stjórar fengu rautt
Morgan GIbbs-White var rekinn af velli undir lokin
Morgan GIbbs-White var rekinn af velli undir lokin
Mynd: Getty Images
Stjórarnir voru báðir reknir af velli
Stjórarnir voru báðir reknir af velli
Mynd: Getty Images
Brighton 2 - 2 Nott. Forest
0-1 Chris Wood ('13 , víti)
1-1 Jack Hinshelwood ('42 )
2-1 Danny Welbeck ('45 )
2-2 Ramon Sosa ('70 )
Rautt spjald: Morgan Gibbs-White, Nott. Forest ('83)

Brighton og Nottingham Forest gerðu 2-2 jafntefli í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag, en leikið var á AMEX-leikvanginum í Brighton.

Bæði lið voru taplaus fyrir leikinn og varð engin breyting á því þegar flautað var til leiksloka.

Forest byrjaði betur og kom sér í forystu strax á 13. mínútu. Carlos Baleba braut á Callum Hudson-Odoi í teignum og var það Chris Wood sem skoraði af punktinum.

Heimamenn jöfnuðu á 42. mínútu. Jan Paul van Hecke kom með glæsilega fyrirgjöf frá hægri og inn á teiginn á einan og óvaldaðan Jack Hinshelwood sem stangaði boltanum í netið.

Nokkrum mínútum síðar sneru Brighton-menn við taflinu er Danny Welbeck skoraði beint úr aukaspyrnu. Þriðja deildarmark hans á tímabilinu.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok jafnaði Ramon Sosa fyrir Forest eftir frábært spil. Boltanum var komið inn á miðsvæðið og buðu Forest-menn upp á einna snertinga sendingar áður en Jota var sendur í gegn. Hann hljóp að teignum, með Sosa sér við hlið og lagði boltann til hliðar á Sosa sem skoraði.

Allt ætlaði um koll að keyra á lokamínútum leiksins. Morgan Gibbs-White fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir tæklingu á Joao Pedro.

Tæklingin var groddarlega en Gibbs-White vann boltann. Stjórar liðanna, Fabian Hürzeler og Nuno Espirito Santo, fengu báðir að líta rauða spjaldið á hliðarlínunni eftir einhvern kýting.

Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum og deildu liðin stigunum, og því áfram taplaus. Brighton er í 7. sæti með 9 stig og Forest í sætinu fyrir neðan með jafnmörg stig.
Athugasemdir
banner