Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
banner
   sun 22. september 2024 16:04
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Vestri kom tvisvar til baka og náði í jafntefli
Gustav Kjeldsen bjargaði stigi fyrir Vestra
Gustav Kjeldsen bjargaði stigi fyrir Vestra
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ati Sigurjóns skoraði og lagði upp
Ati Sigurjóns skoraði og lagði upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR 2 - 2 Vestri
1-0 Atli Sigurjónsson ('45 )
1-1 Andri Rúnar Bjarnason ('64 )
2-1 Benoný Breki Andrésson ('68 )
2-2 Gustav Kjeldsen ('76 )
Lestu um leikinn

KR og Vestri skildu jöfn, 2-2, í 1. umferð í neðri hlutanum í Bestu deild karla á KR-vellinum í dag.

Liðin voru að eigast við í fyrstu umferð í neðri hluta deildarinnar, en það voru heimamenn sem voru með tökin á leiknum framan af þó án þess að skapa sér eitthvað af viti.

Vladimir Tufegdzic fékk hættulegasta færi Vestra í fyrri hálfleiknum eftir sendingu Benedikts Warén, en Guy Smit, markvörður KR, gerði vel að koma út á móti og verja.

Rétt áður en flautað var til leiksloka skoruðu KR-ingar mikilvægt mark er Atli Sigurjónsson skallaði boltanum í slá og inn. Luke Rae átti fyrirgjöfina sem Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skallaði áfram á Atla og þaðan í netið.

Atli var hársbreidd frá því að bæta við öðru marki sínu þegar tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleik en í þetta sinn varði Benjamin Schubert í slá.

KR hafði hótað með nokkrum færum en nýtti ekki og var refsað þegar tæpur hálftími var eftir. Silas Songani slapp upp hægri vænginn, kom boltanum fyrir á Andra Rúnar Bjarnason sem kláraði færið örugglega.

Fjórum mínútum síðar gerði Benoný Breki Andrésson annað mark KR eftir frábæra fyrirgjöf Atla. Benoný tók viðstöðulaust skot og í netið fór boltinn.

Gestirnir í Vestra voru ekki á þeim buxunum að gefast upp, en þegar stundarfjórðungur var til leiksloka jafnaði Gustav Kjeldsen með skalla, sem að vísu fór af Jóni Arnari Sigurðssyni og í netið, en Gustav fær heiðurinn í bili.

Andri Rúnar fékk dauðafæri til þess að gera sigurmark Vestra undir lok leiks en Smit varði meistaralega frá honum. Gæti verið dýrkeypt þegar talið verður upp úr pokanum í lok móts.

Lokatölur 2-2 á KR-velli. KR er í 3. sæti fallriðilsins með 22 stig en Vestri í næst neðsta sæti með 19 stig, einu stigi frá öruggu sæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner